Nemandinn á 21. öldinni: Hvað þarf hann að læra? Ársþing 2008

Dagskrá

Föstudagur 7. nóvember

Kl. 15.00
Tónlistaratriði og þingsetning í Fjölbrautarskóla Suðurnesja.

  1. Sigtryggur Kjartansson leikur á píanó.
  2. Marína Ósk Þórólfsdóttir syngur, undirleikari er Örvar Ingi Jóhannesson.

Þingsetning: Sóley Halla Þórhallsdóttir aðstoðarskólastjóri Heiðarskóla.

15.15 – 16.15
Aðalfyrirlesarar svara spurningunni: Hvað þurfa nemendur 21. aldarinnar að læra?

  • Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík
  • Andri Snær Magnason rithöfundur

16.30 – 17.30
Aðalfyrirlesarar svara spurningunni: Hvað þurfa nemendur 21. aldarinnar að læra?

  • Svanborg R. Jónsdóttir, kennari og doktorsnemi
  • Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis

Ráðstefnustjórar: Eiríkur Hermannsson fræðslustjóri og Guðbjörg Sveinsdóttir rekstarfulltrúi á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

Kl. 19.00
Móttaka í Listasafni Reykjanesbæjar

Kl. 20.00
Hátíðarkvöldverður  á Flughóteli Keflavík. Hátíð að hætti Samtakanna. Stiginn  kreppudans og farið með gamanmál! Veislustjóri: Brynja Aðalbergsdóttir leikskólastjóri í Leikskólanum Vesturbergi.

Laugardagur 8. nóvember

Dagskrá í Fjölbrautaskóla Suðurnesja kl. 9.30-15.15. Fulltrúar átta leikskóla, átta grunnskóla og sex framhaldsskóla kynna áhugaverð þróunarverkefni sem lúta að þema þingsins. Fyrst verða stuttar kynningar en síðan gefst þinggestum tækifæri til að ræða við fulltrúa skólanna í málstofum. Skólarnir sem kynna verkefni sínu eru eftirfarandi:

Leikskólar:

Iðavöllur á Akureyri, Krikaskóli í Mosfellsbæ, Nóaborg í Reykjavík, Reynisholt í Reykjavík, Lækjaborg í Reykjavík, Sæborg í Reykjavík, Tjarnarsel í Reykjanesbæ og Urðarhóll í Kópavogi.

Grunnskólar:

Álftanesskóli á Álftanesi, Heiðarskóli í Reykjanesbæ, Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðarsveit,  Hvassaleitisskóli í Reykjavík, Hvolsskóli í Rangárþingi, Lundarskóli á Akureyri, Norðlingaskóli í Reykjavík og Salaskóli  í Kópavogi.

Framhaldsskólar:

Borgarholtsskóli í Reykjavík, Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði, Framhaldsskólinn á Laugum  í Þingeyjarsveit, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskóli Borgarfjarðar og Menntaskólinn við Sund.

Málstofa leikskóla

Árdegisdagskrá, 9.30-12.00

Leikskólinn Reynisholt:  Jóga – leikir og slökun á 21.öldinni.Aðalheiður Stefánsdóttir aðstoðarleikskólastjóri og Sigurlaug Einarsdóttir leikskólastjóri

Í kynningu sinni leggja þær Aðalheiður og Sigurlaug áherslu á að lífsleikninám einkennist af hlýju, umhyggju og fagmennsku sem veiti börnunum veganesti og verkfæri sem nýtist þeim í samskipum og viðfangsefnum er þau eldast og þroskast. Þær taka dæmi um þetta úr lífsleiknikennslu í Leikskólanum Reynisholti.

Leikskólinn Sæborg: Ég vil geta þúsund bækur
Soffía Þorsteinsdóttir leikskólastjóri

Fjallað verður um áhuga elstu barna leikskólans á bókagerð og hvernig þeim áhuga var fylgt eftir. Börnin gerðu hvert sína bók sem tók heilan vetur í vinnslu. Þau sömdu hvert sína sögu sem markaðist af áhuga þeirra. Síðan völdu þau útlit bókarinnar eftir að hafa skoðað margar bækur. Bókin var búin til úr endurvinnanlegu efni. Útlit bókanna markaðist oft af sjálfri sögunni. Í lokin var haldin sýning á bókunum í Gallerí Útidúr á Njálsgötunni.

Leikskólinn Lækjaborg: Fjölmenning í leikskóla.
Anna Margrét Þorláksdóttir aðstoðarleikskólastjóri Lækjaborgar.

Leikskólinn Lækjaborg í Reykjavík er fjölmenningarlegur leikskóli þar sem lögð er áhersla á fjölbreytileikann í mannlegum samskiptum. Árin 2001-2004 var unnið þar þróunarverkefni sem bar nafnið „Fjölmenningarlegur leikskóli“ og var þá lagður grunnur að þeim starfsaðferðum sem nú eru notaðar.

Leikskólinn Tjarnarsel: Lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi

Inga María Ingvarsdóttir leikskólastjóri

Í erindinu verða kynnt markmið og leiðir lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfis í leikskólanum Tjarnarseli og hvernig það birtist inn á aldursskiptum deildum hans. Þróun lestrar -og skriftarhvetjandi umhverfis í Tjarnarseli hófst 2003 og byggir á því að skipuleggja stig af stigi lestrarhvetjandi umhverfi leikskólabarna frá því að þau hefja leikskólagönguna 2ja ára gömul, með megin áherslu á gott aðgengi bóka og bókalestri. Síðan er elsta árganginum boðið, í lok leikskóladvalarinnar, upp á tíu vikna lestrar- og skriftarnámskeið.

Síðdegisdagskrá, 12.45-15.15

Leikskólinn Nóaborg: Stærðfræði – leikur Anna Margrét Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri
Leikskólinn Nóaborg hefur haft stærðfræði að leiðarljósi í vinnu með börnunum frá árinu 1999. Þróunarverkefni var unnið með elstu börnunum veturinn 1999-2000 sem kveikti áhuga starfsmanna annarra deilda. Eftir þróunarverkefni á yngri tveimur deildum leikskólans veturinn 2001-2002 hefur verið unnið markvisst með stærðfræði  á öllum deildum leikskólans. Markmiðið er að örva  talna- og hugtakaskilning, formskynjun og rökhugsun barnanna í gegnum leik þeirra með viðfangsefni tengd stærðfræði. Stærðfræðina er að finna í öllu daglegu starfi leikskólans m.t.t. aðalnámskrár leikskóla. Stærðfræðin er í hópastarfi, vali, könnunarleik á yngstu deildinni og hún er áberandi í hreyfingu, myndsköpun, málörvun, vettvangsferðum, matmálstímum og fataklefum svo fátt eitt sé nefnt.

Hugmyndafræðin að baki stærðfræðinni kemur úr ýmsum áttum. Við höfum leitað í smiðjur ýmissa fræðimanna s.s. Constance Kamii, Rheta DeVries, Ingrid Pramling Samuelsson og Elisabet Doverborg. Grunnurinn kemur úr þessum ranni en fyrst og fremst er áhersla lögð á að hafa gaman, finna stærðfræðina í því sem börnin hafa áhuga á hverju sinni og nýta áhugamálin til að styrkja þau á þessu sviði.

Leikskólinn Urðarhóll: Mörk án landamæra, útinám á 21.öldinni
Ingibjörgu Thomsen deildarstjóri og Gerður Magnúsdóttir leikskólakennari

Fyrirlesarar ræða spurningarnar: Hvernig þróum við útinám með tenginu við markmið Heilsuleikskólans? Hvaða áhrif hefur útinám á sjálfsmynd og samskipti barna? Hvert er hlutverk kennarans á 21. öldinni? Hversu mikilvægt er útinám á okkar tímum?

Leikskólinn Iðavöllur: Fimm ára og fær í flestan sjó
Anna Elísa Hreiðarsdóttir verkefnisstjóri og lektor við Háskólann á Akureyri og Arnar Yngvason deildarstjóri í leikskólanum Iðavelli og vefhönnuður verkefnis

Kynning á þróunarverkefni um nám og starf elstu barna í leikskólanum Iðavelli, Akureyri.
Fjölbreytt og örvandi leikskólaumhverfi og jákvæð reynsla af námi gefur börnum góðar undirstöður undir grunnskólagöngu. Áhersla er  lögð á leikinn sem námsleið í fjölbreyttu umhverfi sem hvetur til sjálfsnáms, náms með jafningjum og náms með kennara. Verkefni eru tengd inn á sem flesta þætti daglegs starfs.

Krikaskóli: Krikaskóli – nýr valkostur
Þrúður Hjelm skólastjóri

Krikaskóli verður samþættur leik-og grunnskóli fyrir 1 árs  til 9 ára börn þegar hann tekur til starfa haustið 2009. Unnið er að undirbúningi skólans, samvinna er mikil milli leikskólakennara og grunnskólakennara sem komnir eru til starfa og leitað er leiða til að búa til heildstæðan skóla.

Málstofustjóri: Sigrún Sigurðardóttir leikskólastjóri

Málstofa grunnskóla

Árdegisdagskrá, 9.30-12.00

Álftanesskóli:  Allir eru einstakir
Erna Ingibjörg Pálsdóttir aðstoðarskólastjóri og Steinunn Sigurbergsdóttir kennari

Í Álftanesskóla er lögð áhersla á að nemandinn sjái tilgang í því sem hann er að gera og hafi sem mest frelsi til að velja um viðfangsefni. Í okkar skipulagi tökum við mið af því að allir nemendur finni til öryggis, frelsi, gleði og að þeir ráði við verkefnin. Í kynningunni verður m.a. sagt frá verkefnum er tengjast „Uppeldi til ábyrgðar“ (sáttmálar, mitt og þitt hlutverk, sjálfsuppbygging), valverkefnum á unglingastigi (Hvað kosta jólin, íbúðarverkefni, fyrirtækjaverkefni), námsmati (sjálfsmat, jafningjamat) og áætlunarvinnu á miðstigi.

Heiðarskóli : Hugtakakort (MindManager) og leiðabækur – dæmi úr stærðfræði
Þóra Guðrún Einarsdóttir og Haraldur Einarsson kennarar

Í erindinu verður sagt frá umbótastarfi í stærðfræði á unglingastigi í Heiðarskóla. Sérstaklega er staldrað við notkun hugtakakorta (MindManager) og fjallað verður um hvernig og hvers vegna þau nýtast nemendum. Þá verður einnig vikið að fjölbreyttu námsmati, m.a. notkun ferilmöppu og leiðabóka og gefin dæmi.

Hrafnagilsskóli: Starfshættir kennara – nám nemenda
Anna Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri og Björk Sigurðardóttir deildarstjóri

Í erindinu verður m.a. fjallað um það hvaða starfshættir kennara við teljum að komi nemendum til góða og hvernig við skilum af okkur góðum og fróðum nemendum. Við segjum stuttlega frá þeim þróunarverkefnum sem unnin hafa verið í Hrafnagilsskóla á seinustu árum, s.s. fjölbreytt námsmat og nám við hæfi. Við fjöllum um teymisvinnu kennara, markmiðssetningu, fjölbreyttar kennsluaðferðir, uppbyggilegt námsmat, gæðahringi, samverustundir og fleiri þætti sem reynst hafa farsæl í okkar starfi og við teljum að búi nemendur undir nám og störf á 21. öldinni.

Hvassaleitisskóli : Greinabundin kennsla og greinabundið nám
Þórunn Kristinsdóttir skólastjóri og NN kennari við Hvassaleitisskóla

Fjallað verður um nýbreytni og þróunarstarf Hvassaleitisskóla í 1. – 10.bekk, einkum er varðar nýja heildarstefnu skólans er tekur mið af nýrri námsskipan, nýjum námsháttum og sérþekkingu hvers kennara. Stefna skólans – greinabundin kennsla, greinabundið nám – tekur mið af stefnu Menntasviðs Reykjavíkur er varðar einstaklingsmiðað nám, skóla án aðgreiningar, samvinnu nemenda, samábyrgð og sterka félagsvitund og samvinnu við grenndarsamfélagið. Stefnan verður kynnt, hvernig hún snýr að kennurum, nemendum, foreldrum og stjórnendum ásamt því að kynntar verða helstu niðurstöður úr formlegu mati á starfinu.
Síðdegisdagskrá, 12.45-15.15

Hvolsskóli: Hvolsvallarleiðin – skólastefna í takt við þarfir þjóðar
Unnar Þór Böðvarsson skólastjóri og Halldóra Magnúsdóttir aðstoðarskólastjóri

Fjallað um breytingaferlið í Hvolsskóla undanfarin ár og gerð grein fyrir stefnu skólans og áherslum í skólastarfinu í dag.  M.a. verður fjallað um þróunarverkefnið Bright Start, breytingu kennsluhátta á öllum stigum skólans, samstarf kennara á kennslusvæðum og við undirbúning kennslustunda, lestrarstundir, áhugasviðsverkefni og námssamninga.

Lundarskóli: Svífum seglum þöndum
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir skólastýra, Þorgerður Sigurðardóttir deildarstýra o.fl.

Í hinum 540 nemenda Lundarskóla hefur verkefnið Svífum seglum þöndum verið í gangi í tvö ár. Heiti verkefnisins vísar til þess að í skólanum höfum við seglin, –  þ.e. fjölbreyttar kennsluaðferðir og kennsluhætti. Með samvinnu höfum við blásið byr í seglin og stefnum nú í sömu átt. Kynnt verður hvernig þróunarstjórn byggði upp starf þar sem reynir á að takast á við breytingar í starfi og fara í mikla samvinnu, –  hvernig við vinnum saman sem heild, hvernig við vinnum saman í 3. bekk og 7. bekk (dæmi) og hvernig list- og verkgreinarkennarar tengjast starfinu með samvinnu sín á milli. M.a. verða kynntar teymismöppur starfsfólks ( team professional portfolios) og  starfhættir kennarateyma bæði í kennslu og utan.

Norðlingaskóli:  „Það liggur svo makalaust ljómandi á mér…“
Sif Vígþórsdóttir skólastjóri, Ágúst Ólason deildarstjóri, Aðalbjörg Ingadóttir kennari og Fanney Snorradóttir kennari

Á málstofunni verður fjallað um ýmsa þætti í skólastarfi Norðlingaskóla sem verið er að þróa og beinast sérstaklega að því að auka á starfsgleði og áhuga nemenda. Í skólanum eru ríkjandi þau viðhorf að þetta séu þeir þættir sem líklegastir eru til að hvetja nemendur til dáða um leið og þeir verða til þess að auka lífsgleði nemenda og um leið vellíðan.

Sérstaklega verður fjallað um áherslur í einstaklingsmiðuðu leiðsagnarmati, þ.e. matssamtöl sem unnin eru í samráði nemenda, kennara og foreldra, uppbyggingu aldursblandaðra og samþættra smiðja sem auka mjög vægi verklegrar nálgunar og úrvinnslu og vinnu með áhugasvið nemenda.

Salaskóli: „Í skólanum er skemmtilegt að vera.“
Hafsteinn Karlsson skólastjóri og kennarar við skólann

Í Salaskóla er lögð áhersla á fjölbreytni og góðan anda. Nemendur á ólíkum aldri vinna að hluta til saman s.s. í tvíburabekkjum og fjölgreindaleikum, Legó er markvisst notað til að efla hugmyndaauðgi og sköpunarkraft nemenda, skáklíf er í blóma og skólinn á nú nokkra af bestu skákmönnum landsins. Leitast er við að meta nemendur á þeirra eigin forsendum og námsmatið er bæði leiðbeinandi og hvetjandi. Unnið er að þróun einstaklingsmiðaðra prófa.

Skólastjórnendur bjóða foreldrum í morgunkaffi og spjall á haustönn, einum bekk í einu, og er mæting afar góð. Í málstofunni verða nokkur þessara verkefna kynnt sérstaklega.

Málstofustjóri: Helgi Grímsson skólastjóri

Málstofa framhaldsskóla

Árdegisdagskrá, 9.30-12.00

Borgarholtsskóli: Opnum kennslustofunaHafdís Ólafsdóttir og Hlynur Helgason kennarar við skólann

Hafdís Ólafsdóttir kynnir meistaraverkefni sitt:  Opnum kennslustofuna. Viðfangsefni rannsóknarinnar var áhrif námsumsjónarkerfisins Moodle á starfið í kennslustofum tveggja framhaldsskóla á Íslandi. Markmiðið var að kanna viðhorf kennara og nemenda til kerfisins; hvað þeir telji að hindri og hvernig þeir telji að hugbúnaðurinn eigi möguleika á að bæta námið. Hafdís og Hlynur Helgason kynna einnig þróunarverkefnið Kví sem hefur að markmiði að styðja við notendur námsumsjónarkerfisins.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga: Kennari fyrir nemanda eða nemandi fyrir kennara?
Berglind Axelsdóttir, Hrafnhildur Hallvarðsdóttir og Sólrún Guðjónsdóttir kennarar við skólann

Í kynningu sinni og málstofu velta þær Berglind, Hrafnhildur og Sólrún upp spurningum um það hvort markmið, kennsluhættir og námsmat séu miðuð við þarfir, nemenda, kennara eða ráðuneytis. Til að varpa ljósi á efnið taka þær dæmi til umræðu úr þróunarstarfinu í skólanum.

Menntaskólinn á Akureyri: Nýjar leiðir í gömlum skólaHildur Hauksdóttir enskukennari og brautarstjóri almennrar brautar og Margrét Kristín Jónsdóttir  þýskukennari og námsgreinastjóri ferðamálakjörsviðs

Margrét Kristín og Hildur fara yfir þau þróunarverkefni sem unnin hafa verið í Menntaskólanum á Akureyri síðustu ár og hafa vakið athygli í skólasamfélaginu. Í MA hefur verið lögð áhersla á þverfaglega samvinnu og öflugt þróunarstarf sem hvetur til aukinnar ábyrgðar nemandans.

Meðal þróunarverkefna má nefna ferðamálakjörsvið (handhafa Evrópumerkisins), almenna brautlýðræðislegt sjálfsmatevrópsku tungumálamöppuna og Fróðá. Ýmsan lærdóm má draga af þessum verkefnum og munu þær stöllur fara um víðan völl í umfjöllun sinni.

Síðdegisdagskrá, 12.45-15.15

Framhaldsskólinn á Laugum: Hættum að kenna og leyfum nemendum að læra!
Arnór Benónýsson brautarstjóri áfangastjóri og Jóhanna Eydís Þórarinsdóttir kennari

Framhaldsskólinn á Laugum er sá framhaldsskóli á Íslandi sem gengið hefur einna lengst í því að brjótast út úr hinu hefðbundna kennslufyrirkomulagi framhaldsskóla. Þróunarverkefnið „Sveigjanlegt námsumhverfi – persónubundin námsáætlun” hófst við Framhaldsskólann á Laugum vorið 2005.  Verkefnið snertir flesta þætta skólastarfsins, þó aðaláherslan sé á breytingar á námsumhverfi og kennsluháttum.  Allir starfsmenn og nemendur skólans eru þátttakendur í verkefninu.  Málshefjendur munu segja frá þessu starfi og m.a. leitast við að varpa ljósi á það sem vel hefur gengið, sem og á það sem betur hefði mátt fara.

Menntaskóli Borgarfjarðar: English teachers flourish, history teachers shut up!?!
Ingibjörg Ingadóttir fagstjóri tungumála, Þóra Árnadóttir fagstjóri raungreina og Ívar Örn Reynisson fagstjóri samfélagsgreina

Í erindinu er fjallað um þá nýbreytni í kennsluháttum sem stunduð er við Menntaskóla Borgarfjarðar. Fjallað er um kosti og galla þess að vera nýr og gamall kennari í nýju kerfi sem leggur áherslu á notkun upplýsingatækni, símat og verkefnamiðaða kennslu.

Menntaskólinn við Sund: StarfendarannsóknirJóna G. Torfadóttir íslenskukennari og verkefnisstjóri um starfendarannsóknir og Halla Kjartansdóttir íslenskukennari og kennslustjóri
Fyrirlesarar kynna starfendarannsóknir sem stundaðar hafa verið í skólanum frá árinu 2005. Síðastliðinn vetur tóku 17 starfsmenn skólans þátt og þ.á.m. voru kennarar, skólastjórnendur, námsráðgjafi og bókasafnsfræðingur. Sameiginlegt markmið þátttakenda var að auka ábyrgð og virkni nemenda og sem dæmi um einstök rannsóknarverkefni má nefna talþjálfun í dönsku, þróun prófkvíðanámskeiðs í samvinnu við nemendur, faglegt samstarf kennara, fjölbreyttar kennsluaðferðir og að gera nemendur meðvitaðri um eigin námsvenjur.

Málstofustjóri: Ingvar Sigurgeirsson prófessor

Scroll to Top