Starfendarannsóknir – afl til framfara

Starfendarannsóknir – afl til framfara
ráðstefna í Menntaskólanum við Sund
12. maí 2023, kl. 13.30-16.40

 

Aðgangur að samtali og spurningum á ráðstefnunni:

https://www.menti.com/alob4ec3ifan


Ráðstefnunni er ætlað að höfða hvort tveggja til þeirra sem hafa áhuga á að kynna sér starfendarannsóknir og þýðingu þeirra við að þróa og bæta eigið starf, sem og þeirra sem hafa reynslu af þeim og vilja nýta tækifærið til að bera saman bækur sínar. Að ráðstefnunni standa: Dalskóli, Félag um menntarannsóknir, Krikaskóli, Menntaskólinn við Sund, Rannsóknarstofa um starfendarannsóknir og Samtök áhugafólks um skólaþróun.

Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis – en mjög áríðandi að skráning standist sem best – og að látið sé vita ef forföll verða!

Skráning er hér

Dagskrá

Setning:

Helga Sigríður Þórsdóttir rektor Menntaskólans við Sund (ráðstefnustjóri)

Kl. 13.30 Aðalerindi (flutt á ensku)

Mariana Souto-Manning, forseti Erikson stofnunarinnar í Chicago: Do We Act In or React To Research?: Teacher Action Research as a Potent Pathway to Social Justice

In this presentation, Mariana Souto-Manning will discuss the role of teachers in acting in and/or reacting to research, being positioned as actors or reactors. In doing so, she will underscore the need for knowledge generated from teachers to be present in research and inform transformations aligned with socially just processes and outcomes. She will then explain how teacher inquiry can (re)position teachers as actors in research, exploring teacher action research as a potent pathway toward social justice via collaborative and generative possibilities.

14.30-14.45 Kaffiveitingar
14.45-16.00 Málstofur

Ráðstefnugestir geta valið á milli þriggja málstofa eftir skólastigum.

Málstofa fyrir leikskólakennara og kennara á yngsta stigi grunnskóla
Umsjón: Svava Björk Ásgeirsdóttir umsjónarkennari og Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla.

Starfendarannsóknir hafa verið liður í skólastarfi Krikaskóla frá stofnun hans árið 2008. Framkvæmd og skipulagning hefur þróast og breyst á þessum árum og form þeirra er orðið fastmótað fyrir grunnskólahluta skólans. Enn erum við að þreifa okkur áfram með starfendarannsóknir í leikskólastarfinu.
Í málstofunni verður sagt frá fyrirkomulagi og hvernig starfendarannsóknir hafa haft áhrif á skólaþróun Krikaskóla. Fjallað verður um ólíka nálgun eftir umfangi og hversu mikilvægar starfendarannsóknir eru fyrir starfsþróun hvers kennara. Lögð verður áhersla á samtal í málstofunni um þau tækifæri og hindranir sem eru við framkvæmd starfendarannsókna á starfstíma skóla.

Málstofa fyrir grunnskólakennara
Umsjón: Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri, Auður Valdimarsdóttir aðstoðarskólastjóri, Hrund Gautadóttir kennari og stigstjóri og Sigríður Scram deildarstjóri í Dalskóla.

Frá stofnun Dalskóla haustið 2010 hefur það verið draumur okkar að tilheyra öflugu lærdómssamfélagi jafningja. Við ákváðum strax í upphafi að starfendarannsóknir yrðu einn af hornsteinum lærdómssamfélagsins. Allir kennarar skólans fá tækifæri til þess að fylgjast markvisst með eigin vexti í starfi, miðla því til félaga og hafa í leiðinni áhrif á þróun skólans. Á málstofunni mun Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri í námsleyfi fara nokkrum orðum um það form sem við notum. Þá munu Sigríður Schram, Hrund Gautadóttir og Auður Valdimarsdóttir, kennarar og deildarstjóri, segja frá persónulegum áhrifum eigin starfendarannsókna á þær sjálfar, nemendur sína og skólann. Að loknum stuttum kynningum munu fara fram samræður í smærri hópum um starfendarannsóknir, áskoranir og lausnir.

Málstofa fyrir framhaldsskólakennara
Umsjón: Hjördís Þorgeirsdóttir fv. konrektor og félagsfræðikennari í MS og Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari við sama skóla.

Starfendarannsóknir hafa verið stundaðar í MS í bráðum tvo áratugi og hafa þær haft mikilvæg áhrif á þróun kennsluhátta og breytingar í starfi skólans. Málstofan hefst á innleggi um starfendarannsóknarhóp MS, markmið hans, skipulag og helstu viðfangsefni. Að loknu innlegginu verða umræður í litlum hópum um hvað þátttakendur vilja leggja mesta áherslu á í kennslu og námi. Loks munum við ræða hvernig við getum nýtt starfendarannsóknir til að hrinda áhersluatriðum okkar í framkvæmd og þannig veitt okkur afl til framfara.

16.00-16.40 Samræður um næstu skref

Karen Rut Gísladóttir prófessor slær botninn í umræðu dagsins og leiðir samræðu ráðstefnugesta um starfsþróunarmöguleika tengda starfendarannsóknum.


Aðalfyrirlestur, málstofa fyrir grunnskólakennara og lokadagskrárliðir (Samræður um næstu skref) á Teams


Scroll to Top