Árangur og gæði í skólastofunni! – 2011

Árangur og gæði í skólastofunni! – 2011

Haustráðstefna Samtaka áhugafólks um skólaþróun 2011 var haldin í Sjálandsskóla föstudaginn 12. ágúst. Þema ráðstefnunnar var: Árangur og gæði í skólastofunni!

Á ráðstefnunni voru flutt fimm erindi – og áhersla lögð á að þátttakendur fengju góðan tíma til að ræða efni hvers þeirra í hópum.

DAGSKRÁ

8.45 Kaffi og samræða

9.15 Ráðstefnan sett

9.20-12.10

Hafsteinn Karlsson skólastjóri Salaskóla: Er hægt að kenna börnum eitthvað, verða þau ekki bara að læra sjálf?

Í þessu erindi var fjallað um kröfur sem nemendur, foreldrar, skólayfirvöld og ekki síst kennarar sjálfir gera til starfsins í kennslustofunni. Hugað var að því hvernig kennarinn er búinn verkfærum og hvernig hann notar þau. Litið var inn í fjölmargar kennslustofur hérlendis og erlendis og fylgst með því starfi sem þar er unnið. Er það gott, vekur það áhuga, er það líklegt til árangurs?

Birna Sigurjónsdóttir verkefnisstjóri hjá Menntasviði Reykjavíkur: Mat á gæðum kennslustunda?

Á undanförnum árum hefur Menntasvið Reykjavíkur unnið að verkefninu Heildarmat á skólastarfi. Matinu er fyrst og fremst ætlað að styrkja skólastarfið og stuðla að umbótum. Í skólaheimsókn er rætt við alla aðila skólasamfélagsins í rýnihópum og með vettvangsathugunum í skólastofum er lagt mat á nám og kennslu skv. viðmiðum um gæði.

Guðjón H. Hauksson og Jónas Helgason kennarar við Menntaskólann á Akureyri: Íslandsáfangarnir: Nú árið er liðið …

Í Menntaskólanum á Akureyri er nú komin ársreynsla á Íslandsáfangana tvo sem kynntir voru á ráðstefnu samtakanna fyrir ári síðan en þeir byggjast á glímu nemenda við heildstæð viðfangsefni. Hvor áfangi hefur verið keyrður tvisvar og því er komin nokkur reynsla á þetta fyrirkomulag. Í þessum fyrirlestri gerðu Jónas og Guðjón upp árið, bæði frá sjónarhóli kennara og nemenda, hvað vel tókst og hvað má betur fara.

12.10 Hádegishlé

13.00-15.00

Bryndís Jóna Magnúsdóttir, Haraldur Axel Einarsson og Þóra Guðrún Einarsdóttir, kennarar við Heiðarskóla í Reykjanesbæ: Áhugasamir nemendur – árangursríkara skólastarf 

Sagt var frá þróunarverkefni sem hefur verið unnið á unglingastigi í Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Markmið verkefnisins var að þróa kennsluaðferðir og vinnubrögð sem miðuðu að því að efla áhuga nemenda á námi sínu og gera það áhugaverðara.

Karl Frímannsson skólastjóri Hrafnagilsskóla: Starfshættir kennara eru stærsti áhrifavaldurinn

Fjallað var um starfshætti kennara og mikilvægi einstakra þátta sem lúta að námi og framförum nemenda. Einkum var sjónum beint að mikilvægi þess að kennarar viti hvað er mikilvægast fyrir nemandann að læra, hvaða kennsluhættir eru árangursríkastir og hvernig unnið er með læsi.

15.00 Ráðstefnulok

Ráðstefnustjórar: Hafdís Bára Kristmundsdóttir að stoðarskólastjóri Hofsstaðaskóla og Ólafur Schram kennari við Sjálandsskóla.

Ráðstefnugjald kr. 2.500.- fyrir félagsmenn, kr. 3000.- fyrir utanfélagsmenn. 

Scroll to Top