Haustráðstefna samtakanna haldin í Breiðholtsskóla í Reykjavík 14. ágúst. 2009 Þema ráðstefnunnar:
LISTIR OG SKÖPUN Í SKÓLASTARFI
Árdegis verða fyrirlestrar, en síðdegis fjölbreyttar kynningar og smiðjur.
Aðalfyrirlesarar:
Anna Flosadóttir leik- og myndlistarkennari Hlíðaskóla
Guðmundur Oddur Magnússon prófessor, L.Í.,
Kristín Valsdóttir deildarstjóri listkennsludeildar L.Í,
Þorgerður Hlöðversdóttir listgreinakennari við Ingunnarskóla og
Þorvaldur Þorsteinsson rithöfundur og myndlistarmaður.
Guðmundur nefnir erindi sitt: Hvað þýðir það að vera skapandi? Þorgerður kallar sitt erindi Listgreinar í skólastarfi – krydd eða kjarni. Þorvaldur nefnir erindi sitt: Skapandi börn og skekkjan í Pisa.
Smiðjur, verkstæði og kynningar:
Bókagerð
Staður: Menntavísindasvið H.Í., við Stakkahlíð, 105 Reykjavík
Leiðbeinandi: Lilja M. Jónsdóttir lektor við Menntavísindasvið H.Í.
Í þessari smiðju læra þátttakendur aðferðir við að búa til fjölbreyttar og fallegar bækur. Einnig fá þeir tækifæri til að útbúa sýnishorn af ýmsum gerðum bóka. Sýnt verður hvernig kenna má nemendum að búa til bækur fyrir verkefni sín. Það geta verið verkefni sem unnin hafa verið í hópvinnu, paravinnu eða þá að nemendur búa til sína eigin námsmöppu (portfolio). Reynslan hefur sýnt að nemendur vanda mun betur til þess efnis sem þeir setja í vandaðar, handgerðar bækur.
Lilja hefur áralanga reynslu af því að kenna nemendum sínum í 4. – 10. bekk að búa til ýmsar gerðir bóka sem þeir hafa nýtt undir alls kyns verkefni, auk þess sem hún kennir nemendum á kjörsviði Samfélagsgreina á Menntavísindasviði HÍ að nota skapandi kennsluaðferðir í bóklegu námi á svo kölluðum verkstæðum, þar með talda bókagerð.
Frásögn og framsetning ævintýra í leikskólanum
Staður: Waldorfleikskólinn Ylur, Lækjabotnum v.Suðurlandsveg.
Leiðbeinandi: Inger S. Steinsson kennari við Waldorfskólann í Lækjarbotnum.
Í Waldorfleikskólanum Yl eiga ævintýri fastan sess í deginum. Við munum skyggnast inn í ævintýraheiminn og upplifa hvernig Waldorfleikskólakennarinn vinnur með ævintýrin á mismunandi hátt, sem frásögn, brúðuleikrit og leikrit.
Inger er Waldorfleikskólakennari að mennt og hefur margra ára reynslu sem Waldorfleikskólakennari.
Handverk í Waldorfskóla
Staður: Waldorfskólinn í Lækjarbotnum v.Suðurlandsveg
Leiðbeinendur: Sólveig Þórbergsdóttir og Rannveig Gissurardóttir kennarar við Waldorfskólann í Lækjarbotnum.
Kynnt verður nálgun Waldorfskólans í handverkskennslu og hvernig verkefnaval getur mætt barninu þar sem það er statt í sínum þroska. Hvernig verkar handverkið og efniviðurinn á manneskjuna? Þátttakendur fá að kynnast koparsmíði, tálgun, trésmíði og eldsmíði.
Sólveig er með Waldorfkennaramenntun og B.A. próf í listum, hún hefur margra ára reynslu af kennslu í Waldorfskóla, Rannveig er skartgripahönnuður með B.A. próf í listum.
Listir/listasmiðja í uppeldisstarfi leikskólans
Staður: Leikskólinn Sæborg, Starhaga 11, 107 Reykjavík
Fjöldi þátttakenda: 12
Leiðbeinandi: Kristín Hildur Ólafsdóttir verkefnistjóri listasmiðju í leikskólanum Sæborg.
Í Sæborg er lögð áhersla á alhliða sköpun barna í samþættu starfi. Þar gegnir listasmiðja og opinn efniviður miklu máli í tjáningu barnsins.
Kynnt verður það starf sem leikskólinn hefur verið að þróa undanfarin ár. Listir verða samþættur liður í starfinu með áherslu á virkni barnsins og sem leið í þekkingaröflun þeirra. Hugmyndir barnanna eru skráðar og haldið til haga í ferilmöppum sem kynntar verða.
Kristín Hildur Ólafsdóttir er leikskólakennari og myndmenntakennari og hefur kennt verðandi leikskólakennurum um sköpun, myndræna tjáningu og myndmennt til margra ára. Hún hefur haldið fjölda námskeiða um listir, sköpun og samþættingu fyrir leik- og grunnskóla. Kristín Hildur starfar nú sem verkefnistjóri við leikskólann Sæborg auk þess að vera verkefnisstjóri í þróunarverkefni átta leikskóla í Reykjavík sem starfa í anda Reggio Emilia.
Ljóðlist með börnum
Staður: Listgreinahús Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Skipholti 37
Leiðbeinandi: Þórður Helgason aðjúnkt við Háskóla Íslands
Í þessari smiðju leiðbeinir Þórður Helgason um ljóðagerð með börnum og bendir á aðferðir sem vel hafa gefist til að vekja áhuga á ljóðlist.
Þórður Helgason er bókmenntafræðingur og ljóðskáld og kennir við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (áður Kennaraháskóli Íslands). Hann efur um langt árabil leiðbeint fólki á öllum aldri um ljóðagerð með mjög góðum árangri. Þátttakendur í þessari smiðju mega gjarnan taka með sér börn á grunnskólaaldri.
Leiklistarsmiðja
Staður: Háteigsskóli við Háteigsveg
Leiðbeinendur Ása Helga Ragnarsdóttir aðjúnkt við Háskóla Íslands og Rannveig Þorkelsdóttir kennari Háteigsskóla
Fáar aðferðir henta betur til að virkja sköpunarkraft nemenda en leiklist. Þessar aðferðir er hægt að tengja öllum námsgreinum auk þess sem leiklist á fullan rétt á sér sem sjálfstætt viðfangsefni.
Í þessari smiðju leiðbeina Ása Helga Ragnarsdóttir og Rannveig Þorkelsdóttir um noktun leiklistar í kennslu á mið- og unglingastigi. Þær Ása og Rannveig hafa mikla reynslu af leiklist í kennslu og hafa unnið bæði með nemendum og
kennurum. Ása kennir leiklist við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún hefur samið bókina Leiklist í kennslu ásamt Önnu Jeppesen sem er handbók fyrir kennara sem vilja nota leiklist í tengslum við námsefnið. Rannveig heldur m.a. úti vefsvæðinu Leikum af list http://www.leikumaflist.is/
Samþætting listgreina við almennt skólastarf og þemaverkefni
Staður: Hofstaðaskóli
Leiðbeinendur: Kennarar í Hofstaðaskóla, Skólabraut 1, Garðabæ
Í Hofsstaðaskóla í Garðabæ hefur á liðnum árum verið unnið markvisst með nýsköpun og samþættingu listgreina við almennt skólastarf og þemaverkefni. Kennarar skólans hafa lagt áherslu á að nemendur noti fjölbreyttan efnivið í verkum sínum og hafa þeir sýnt mikla hugkvæmni í endurnýtingu og notkun verðlítils efnis í sköpun og tjáningu. Í þessari smiðju sýna kennarar Hofstaðaskóla (nýsköpun, smíði, textíl, myndmennt og umsjónarkennsla) fjölbreytt verk nemenda, greina frá ferli nokkurra verkefna frá hugmynd til framkvæmdar.
Skapandi starf á unglingastigi
Staður: Álftanesskóli
Leiðbeinendur: Stjórnendur og kennarar við Álftanesskóla
Í Álftanesskóla er lögð mikil áhersla á skapandi starf og gagnrýna hugsun. Í þessari smiðju munu stjórnendur og kennarar skólans kynna dæmi um verkefni sem nemendur hafa fengist við og tengjast sköpun. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna heildstæð, skapandi og samþætt verkefni sem nemendur á unglingastigi hafa verið að fást við, þar sem þeir hafa m.a. líkt eftir stofnun mismunandi fyrirtækja, hannað draumanám sitt, skipulagt íþróttaviðburði og undirbúið rekstur fjölmiðla.
Skapandi og skemmtileg stærðfræði
Staður: Vatnsendaskóli, Funahvarfi 2, 203 Kópavogi
Leiðbeinendur: Birna Hugrún Bjarnardóttir, María Ásmundsdóttir og Klara Sigurmundadóttir kennarar.
Í smiðjunni verður lögð áhersla á að kynna fjölbreytt verkefni með stærðfræði að leiðarljósi. Verkefnin eru öll hlutbundin og mörg þeirra tengjast umhverfi nemenda. Verkefnin sem kynnt verða tengjast flestum efnisþáttum stærðfræðinnar og henta grunnskólanemendum. Lögð verður áhersla á virka þátttöku þeirra sem koma í smiðjuna.
Leiðbeinendur í þessari smiðju eru grunnskólakennarar sem eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á stærðfræðikennslu. Birna Hugrún er með framhaldsnám í stærðfræðimenntun frá KHÍ. Hún hefur kennt á mörgum stærðfræðinámskeiðum og komið að samningu námsefnis í stærðfræði á vegum Námsgagnastofnunar og Flatar samtaka stærðfræðikennara. Klara stundar viðbótarnám í íslensku við HÍ. Hún hefur verið með stærðfræðismiðjur á námskeiðum fyrir kennara. María hefur verið með stærðfræðismiðjur á kennaranámskeiðum og einnig hefur hún komið að samningu námsefnis á vegum Námsgagnastofnunar.
Skapandi starf í kringum umhverfi og endurnýtingu
Staður: Listgreinahús Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Skipholti 37
Leiðbeinandi: Sigrún Guðmundsdóttir, lektor við Háskóla Íslands
Í þessari smiðju verður unnið með hugmyndavinnu út frá umhverfi og endurnýtingu. Kynntar verða fjölbreyttar leiðir hvernig virkja má sköpunarkraft nemenda í gegnum náttúru og manngert umhverfi. Fjallað verður um hvernig hægt er að nýta hið daglega líf og óhefðbundinn efnivið sem uppsprettu hugmynda og hvernig hægt er að vinna með hugmyndavinnu og endurnýtingu í hinum ýmsu viðfangsefnum grunnskólans.
Sigrún Guðmundsdóttir hefur kennt listgreinar við Menntavísindasvið HÍ í 20 ár þar sem hinn skapandi þáttur hefur hefur verið þungamiðjan í allri hennar kennslu.
Skapandi kennsla í bóklegum fögum
Staður: Waldorfskólinn í Lækjarbotnum v.Suðurlandsveg
Leiðbeinendur : Eiríkur K. Gunnarsson og Bjarnheiður Magnúsdóttir, kennarar við Waldorfskólann í Lækjarbotnum.
Í Waldorfskólanum er námsefninu miðlað til barnanna á listrænan og skapandi hátt. Gefin verður innsýn í hvernig bóklegum fögum er miðlað til barnanna á lifandi hátt, annarsvegar framsetning kennarans og hinsvegar listræn úrvinnsla nemandans.
Eiríkur er með Waldorfkennaramenntun og hefur kennt við Waldorfskóla í mörg ár. Bjarnheiður hefur stundað nám í listmeðferð og kennir myndlist við Waldorfskólann í Lækjarbotnum.
Smiðja um smiðjur
Staður: Norðlingaskóli, Árvaði 3
Leiðbeinendur: Kennarar við Norðlingaskóla
Í Norðlingaskóla í Reykjavík hafa kennarar verið að þróa kennsluhætti í svokölluðum smiðjum. Smiðjur eru nokkurs konar verkstæði þar sem nemendur fara í smiðju til starfsmanna skólans og takast á við fjölbreytt viðfangsefni. Í smiðjum þessum sem eru aldursblandaðar og tengjast yfirleitt mörgum námsgreinum er megináhersla lögð á skapandi vinnu þar sem list- og verkgreinar eru samþættar við aðrar námsgreinar. Lögð er áhersla á að viðfangsefnin veki áhuga nemenda, séu skemmtilegar og nái athygli þeirra. Sem dæmi um smiðjur í Norðlingaskóla má nefna Fjallasmiðju, Hugvekjusmiðju, Landnámssmiðju, Skuggaleikhússmiðju, Ættfræðismiðju og Norðlingaleikar.
Í þessari smiðju um smiðjur munu kennarar Norðlingaskóla kynna dæmi um smiðjur og tækifæri gefst til að ræða þessa starsfhætti og leggja drög að áhugaverðum nýjum smiðjum.
Vísnagerð
Staður: Listgreinahús Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Skipholti 37
Leiðbeinandi: Ragnar Ingi Aðalsteinsson aðjúnkt við Háskóla Íslands
Oft vill gleymast hve mikil sköpun er fólgin í því að setja saman vísu. Fái börn góða leiðsögn ráða þau vel við þetta viðfangsefni sem reynir m.a. á orðanotkun, hugmyndaflug, útsjónarsemi og kímni . Vísnagerð örvar ýmsa þætti málþroskans, s.s. orðaforða og þekkingu á málhljóðum, orðhlutum, setningaskipan, merkingu orða og viðeigandi notkun málsins.
Í þessari smiðju miðlar Ragnar Ingi Aðalsteinsson kennurum hugmyndum um hvernig standa má að því að kenna börnum og unglingum að setja saman vísur. Ragnar hefur rannsakað bragarhætti, skrifað námsefni í bragfræði og hefur mikla reynslu af vísnagerð með ungu fólki, auk þess að vera sjálfur snjall hagyrðingur.
Tónsköpun
Staður: Sjálandsskóli, Löngulínu 8, Garðabæ
Leiðbeinendur: Flosi Einarssson tónmenntakennari í Grundaskóla á Akranesi og Ólafur Schram tónmenntakennari í Sjálandsskóla.
Leiðbeinendur hafa í tónmenntakennslu sinni lagt áherslu á tónsköpun nemenda. Þeir hafa m.a. beitt tölvutækni í og tekið upp mörg verk nemenda. Í smiðjunni segja þeir frá starfsaðferðum sínum og þátttakendur fá tækifæri til þess að spreyta sig í tónsköpun.
Ráðstefnugjald, kr. 3000.- fyrir félagsmenn og kr. 4000.- fyrir utanfélagsmenn. Hægt er að sækja ráðstefnuna hálfan daginn (hálft ráðstefnugjald).