Lykilhæfni – leiðir og leiðsögn

Þann 14. ágúst 2017 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til ráðstefnu um lykilhæfni. Þemað var: Lykilhæfni – leiðir og leiðsögn.

Leitast var við að svara spurningunni:

Hvernig náum við best þeim markmiðum sem sett eru með skilgreiningu á lykilhæfni í námskrá (hæfni í tjáningu, samræðu, skapandi og gagnrýninni hugsun, samvinnu, sjálfstæðum vinnubrögðum, að nýta ólíka miðla og taka ábyrgð á eigin námi) og hvernig er best að haga mati á þessari hæfni?

Ráðstefnan var í Rimaskóla í Reykjavík og sóttu hana rúmlega 300 þátttakendur.

Dagskrá hófst með setningu kl. 9.00

Árdegis voru flutt eftirfarandi erindi:

9.10–9.40 Meyvant Þórólfsson dósent við Kennaradeild Háskóla Íslands: Lykilhæfni: Alhliða hæfni sem snertir alla þætti uppeldis og menntunar.

9.40–10.10 Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar: Sjáðu hvað ég get! 

10.10–10.40 Kaffi

10.40–11.10 Stefanía Malen Stefánsdóttir skólastjóri Brúarásskóla: Með lykilhæfni að leiðarljósi! Um Brúna – þróunarverkefni í Brúarásskóla.

11.10–11.40 Hulda Dögg Proppé, kennari í Sæmundarskóla: Hvernig á ég að meta þetta? Að finna leið að settu marki.

11.40–12.10 Ívar Rafn Jónsson framhaldsskólakennari: LeiðsagnarNÁM – Samtal milli kennara og nemenda.

12.10-12.50 Hádegishlé

12.50-13.20 Kristín Ingólfsdóttir prófessor og f.v. háskólarektor: Stenst menntakerfið tæknibyltinguna?

Nánar um erindin, sjá hér!

13.30-14.30 og 14.45-15.45 Málstofur, kynningar, sýningar og vinnustofur

Ég og bærinn minn – þróunarverkefni um fjármálalæsi í Salaskóla

Verkefnisstjórarnir Hrafnhildur Georgsdóttir og Þorvaldur Hermannsson kennarar munu kynna verkefnið.

Í Salaskóla er verið að vinna verkefni sem snýr að fjármálafræðslu fyrir nemendur frá 11 ára aldri. Annarsvegar fá nemendur beina fræðslu um fjármál, skatta, lýðræði, opinbera þjónustu og atvinnulíf og hinsvegar fá þeir tækifæri til að lifa og starfa í „bæjarfélagi“ sem við erum búin að setja upp í skólanum. Nemendur sækja um störf og vinna svo þessi störf einn skóladag í næstu viku. Þeir fá peninga til að ráðstafa og þurfa að vinna eftir starfslýsingu og ljúka ýmsum verkefnum, fara jafnvel til „læknis“, á kaffihús, í klippingu eða á kjörstað, auk þess að vera almennir þátttakendur í samfélaginu þann dag.
Við byrjum verkefnið með nemendum í 6.og 7. bekk en stefnum á að það nái til enn fleiri nemenda á næsta skólaári og jafnvel líka til nemenda í öðrum skólum, ef vel tekst til. Verkefnið er í góðu samstarfi við atvinnulífið en góð fyrirtæki hafa lagt okkur lið á ýmsan hátt.

Þetta verkefni er ný nálgun á fjármálafræðslu fyrir krakka en eins og allir vita er mikil þörf á fræðslu af því tagi sem nær til þessa aldurs. Við sækjum hugmyndina að hluta til til Finnlands en höfum lagað hana að íslenskum veruleika og staðfært á ýmsan hátt. Okkar von er að það námsefni sem við höfum búið til hér í vetur nýtist öðrum íslenskum skólum.

Þetta verkefni er hluti af stærra verkefni sem er um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og það er styrkt af þróunarsjóði grunnskóla, Erasmus+ og ýmsum fyrirtækjum. Um leið og verkefnið er unnið er gerð stuttmynd um það sem notuð verður til að kynna verkefnið.

Fiskabúr og veggjakrot – tvær öflugar kennsluaðferðir sem virkja nemendur í umræðum!
Lilja M. Jónsdóttir lektor Kennaradeild Mvs Háskóla Íslands

Umræður um álitamál og málefni líðandi stundar ættu að vera fastur liður í skólastarfi 21. aldar. Menntagildi lykilhæfni felst meðal annars í því að efla hæfni nemenda til að „tjá hugsanir sínar, skoðanir og tilfinningar munnlega … og taka þátt í samræðum og rökræðum“ (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011/13, bls. 87). Í þessari málstofu verða kynntar tvær samræðuaðferðir sem henta sérstaklega vel til að virkja nemendur í umræðum í skólastofunni. Fá þátttakendur tækifæri til að taka þátt og prófa sjálfir þessar aðferðir sem kallast fiskabúrsaðferðin og veggjakrotsaðferðin.

Fuglar – þróunarverkefni í Grandaskóla
Arnheiður Ingimundardóttir o.fl. kennarar í Grandaskóla í Reykjavík

Kennarar í Grandaskóla segja frá alþjóðlegu verkefni sem skólinn tekur þátt í og lýtur að fuglaskoðun og rannsóknum á fuglum í sínu náttúrulega umhverfi.  Kennslufræðilegur grunnur verkefnisins byggir á  rannsóknarvinnu og fjölbreyttri úrvinnslu gagna. Nemendur þjálfast í að beita vísindalegum rannsóknaraðferðum  um leið og þeir fræðast um og upplifa náttúruna. Verkefnið vann til hvatningarverklauna skóla- og frístundaráðs fyrir nýbreytni í skólastarfi.

Getur skólastofan verið vettvangur gagnrýnnar hugsunar?
Jón Thoroddsen kennari við Laugalækjarskóla

Samræður og gagnrýnin hugsun í kennslustofu hafa um skeið verið hugleikin þeim sem um skólamál fjalla. Þó er eins og fáir geri sé grein fyrir hvernig eigi að framkvæma slíkt í skólastarfi. Jón Thoroddsen hefur gert tilraunir með slíka kennslu og mun í erindi sínu benda á hvernig hægt sé að bregðast við þessum vanda. Að erindi loknu er ætlunin að taka samræðu undir stjórn hans um þessi mál þar sem vonast er til að gestir séu tilbúnir í þann slag með því að veita honum ærlega viðspyrnu.

Hvernig metum við lykilhæfni?
Guðbjörg M. Sveinsdóttir skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur og Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands

Sagt verður frá ýmsum leiðum sem kennarar hér á landi hafa farið við að meta lykilhæfni. Sérstaklega verður staldrað við þær aðferðir sem kennarar við Grunnskólann í Grindavík hafa verið að þróa.

Leiðin að sjálfstæði – eflandi kennslufræði

Vinnusmiðja í tveimur (sjálfstæðum) hlutum þar sem leiðir nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar til að efla lykilhæfni og grunnþætti verða kynntar og prófaðar.

13:30–14:30 Smiðja 1: Hugvit sem grunnur náms
Vinnusmiðjustjórar: Rósa Gunnarsdóttir og Svanborg R Jónsdóttir

Kynntar verða rannsóknir og hagnýtar leiðir til að til að hjálpa börnum og ungu fólki að vinna með eigið hugvit og efla trú á eigin getu til að hafa áhrif á umhverfi sitt.

Leiðin sem farin verður hefst í gleðinni en færist svo smám saman að verkum barnanna. Þátttakendur í vinnustofunni fá að spreyta sig á námsefni í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt um leið og rætt verður um mikilvægi hugvits í menntun

14:45–15:45 Smiðja 2: Frá hugmynd til framkvæmdar
Vinnusmiðjustjórar: Rósa Gunnarsdóttir, Svanborg R Jónsdóttir og Þórdís Sævarsdóttir

Frumkvæði og sjálfsmynd barna og ungs fólks sem gerendur frekar en þátttakendur eða þiggjendur menntunar.

Rætt verður um framkvæmd nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í íslenskum skólum með sérstaka áherslu á mat á því námi sem fer fram í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Þátttakendum verður boðið að vinna með eigið hugvit og reyna á eigin skinni mismunandi matsleiðir sem taka á skapandi aðgerðum og hugsun.

Lykilhæfni – leiklist – leikur
Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir kennari við menntavísindasvið HÍ.

Lykilhæfni er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans. Geta kennsluaðferðir leiklistar ef til vill komið að góðum notum til þess að efla lykilhæfni nemenda? Kynnt verður leikferli sem er ætlað að stuðla að lykilhæfni nemenda, þar sem tjáning, samræða, gagrýnin hugsun og skapandi vinnubrögð fléttast saman. Í lok vinnusmiðju verður rætt um fjölbreytt námsmat í tengslum við lykilhæfni.

Lykilhæfni og leikskólinn

Samræða um lykilhæfni á leikskólastigi. Unnið verður í hópum með þjóðfundasniði.

Nýtt lestrarkennsluefni: Fimm vinir í blíðu og stríðu
Rannveig Lund, lestrar- og sérkennslufræðingur

Efnið er þríþætt: Textar í bókum, fyrir skjái og verkefni sem sum eru á tveimur þyngdarstigum. Verkefnin hjálpa lesendum að tileinka sér orð og orðatiltæki textanna, efla tök á stafsetningu og mál- og setningarfræðilegum atriðum.

Efnið hentar þeim sem kunna hljóð bókstafanna, hafa þokkaleg tök á lestrartækni en vantar upp á skilning og leshraða. Markhóparnir eru því innan byrjendastigs, meðal seinfærra í lestri og þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Sögupersónur höfða til lesenda af íslenskum, afrískum og asískum uppruna.

Vinnusmiðja um leiðsagnarNÁM
Ívar Rafn Jónsson og Hildur Jónsdóttir, kennarar við FMos og Marta Guðrún Daníelsdóttir kennari við Kvennaskólann

Tekin verða dæmi úr kennslu þar sem leiðsagnarnám er í forgrunni. Í vinnusmiðjunni er lögð er áhersla á að kennarar máti leiðsagnarnám við eigin kennslu.

Sjálfbærni og sköpun – hagnýt nálgun í almennu skólastarfi og leiðir til námsmats
Þórdís Sævarsdóttir, skólastjóri Innocent Uppfinningaskólans

Hvað felst í grunnþáttunum ,,sjálfbærni“ og ,,sköpun“ og hvaða gildi hafa þeir fyrir skólastarf 21. aldarinnar. Hvernig má nálgast grunnþættina á praktískan hátt í almennu skólastarfi og hverjar eru hugsanlegar leiðir til námsmats?

Þemavinna – þjálfun í lykilhæfni
Anna María Þorkelsdóttir, verkefnisstjóri í Hólabrekkuskóla

Í Hólabrekkuskóla hafa undanfarna tvo vetur verið í gangi þemaverkefni alla miðvikudaga í fimm kennslustundir þar sem nemendur leysa ýmis ólík verkefni. Verkefnin eru þannig uppbyggð að þau uppfylla flest allar kröfur um þjálfun á lykilhæfni og sú hæfni er vel mælanleg í þessum verkefnum. Þessi vinna hefur haft jákvæð áhrif á skólabraginn og aukið vægi list- og verkgreina til muna.