Öll börnin okkar: Hvernig komum við til móts við fjölbreyttan nemendahóp?

 

Þann 14. ágúst nk. verður haldin á höfuðborgarsvæðinu ráðstefna helguð þemanu Öll börnin okkar: Hvernig komum við til móts við fjölbreyttan nemendahóp?

Takið daginn frá!

Að þessum viðburði standa Samtök áhugafólks um skólaþróun í samvinnu við Kennarasamband Íslands og Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Boðið verður upp á fyrirlestra, málstofur, vinnustofur og kynningar þar sem áhersla verður lögð á leiðir til að koma betur til móts við fjölbreyttan nemendahóp.

Meðal aðalfyrirlesara verður dr. Barbara Laster prófessor við Towson háskóla í Maryland. Erindi hennar heitir How do we make inclusion and diversity a reality in daily teaching? Edda Óskarsdóttir sérfræðingur við Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar fjallar um stöðuna hér á landi í samanburði við nágrannalönd okkar og veltir fyrir sér hvert skuli stefna. Hún nefnir erindi sitt: Menntun fyrir alla: Hvert erum við komin?

Meðal annars efnis sem væntanlega verður í boði má nefna þetta:

Vinnustofa um möguleika snjalltækninnar við að koma til móts við fjölbreytta nemendahópa ‒ Kynning á stoðþjónustu í skólum sem hafa verið að þróa nýjar leiðir ‒ Málstofa um hvort til sé kennslufræði fyrir skóla menntunar fyrir alla ‒ Dagskrá um stöðumat fyrir ÍSAT nemendur ‒ Kynning á nýjum námskrám í ÍSAT fyrir leik- og grunnskóla og bent á leiðir sem hægt er að fara í námi og kennslu þessa hóps ‒ Vinnustofa um markmið og leiðir í samvinnunámi ‒ Kynning á samvinnunámskrá ‒ Sérfræðingakápan; leið til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp ‒ Samvinnu og lausnaleit með Breakout EDU ‒ Vinnustofa um Gefðu 10, aðferð sem vel hefur reynst til að auka samræðu og samskipti við fjöltyngd börn ‒ Kynning á Læsisfimmunni og Stærðfræðiþrennunni ­­‒ Vinnustofa um leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla – og frístundastarfi ‒ Umræða um geðræktarmál og málefni barna með alvarleg geðræn vandkvæði ‒ Listin að þróa námstækifæri og skólamenningu í leikskólum með hátt hlutfall fjöltyngdra barna ‒ Umfjöllun um  niðurstöður skýrslunnar: Menntun fyrir alla – horft fram á veginn sem kom út í júní 2019 á vegum mennta- og menningarmálaráðneytisins ‒ Umræða um móttöku flóttabarna í íslenskum skólum ‒ Vinnustofur og málstofur í umsjón Félags sérkennara á Íslandi ‒ Málstofur og vinnustofur skipulagðar af Miðju máls og læsis

Félagsmenn í Samtökum áhugafólks um skólaþróun, sem og aðrir, eru hvattir til að senda undirbúningsnefnd ráðstefnunnar ábendingar um efni sem ástæða er til að kynna á ráðstefnunni (ingvars(hja)hi.is).