Hvað er til marks um gæði í kennslu? 

Aðalerindi á ráðstefnunni ÖLL BÖRNIN OKKAR
Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við menntavísindasvið HÍ og Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við kennaradeild HA.

Erindið byggir á reynslu rannsóknarhóps við HA og HÍ af þátttöku í rannsókninni Gæði kennslu á Norðurlöndum (QUINT/Quality in Nordic Teaching). Tilgangur hennar er meðal annars að skilja hvað felst í gæðum kennslu og fá samanburð á kennslustundum milli Noregs, Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar og Íslands. Þó að skólastarf á Norðurlöndunum sé yfirleitt talið fremur líkt, sýna rannsóknir sem gerðar hafa verið með myndbandsupptökum í norskum, sænskum og finnskum skólum, að ákveðinn munur er á kennsluháttum milli landanna. Gagna var aflað á Íslandi í tíu grunnskólum í samfélagsfræði, íslensku og stærðfræði í 8. bekkjum, með myndbandsupptökum, spurningalistum til nemenda og viðtölum við kennara.

Hvað nákvæmlega felst í góðri kennslu er umdeilanlegt en vaxandi samstaða er þó um að hún einkennist af skýrum fyrirmælum kennara, vitsmunalegri virkni nemenda, námsaðlögun eða einstaklingsmiðun, og styðjandi námsumhverfi. Við greiningu á myndbandsupptökunum er unnið útfrá líkani sem tekur til tólf þátta. Segja má að einfaldasta matið sé fólgið í að meta hvort eitthvað er til staðar eða ekki í þeirri kennslustund sem greind er en flóknara mat felst í því að greina með hvaða hætti og á hvaða þrepi tiltekinn þáttur birtist í upptökunni.

Í samtölum okkar félaganna í rannsóknarhópnum hafa margar krefjandi spurningar vaknað sem snerta gæði kennslu, fagmennsku, aðstæður og væntingar. Í erindinu verða tvær spurningar reifaðar og dæmi tekin úr gögnunum til að varpa ljósi á það sem rannsóknarhópurinn glímir við: Hvað er til marks um gæði í kennslu?  Hvernig má sjá hvort kennari leitast við að koma til móts við þarfir allra nemenda sinna? Báðar draga þær fram nokkur svör við spurningunni sem varpað er fram í heiti þessa erindis. Henni verður seint svarað með einföldu jái eða neii svo við deilum okkar pælingum um hversu sanngjarnt, aðstæðubundið og skólapólitískt svarið gæti verið.

—–