Öll börnin okkar – vinnustofur, málstofur og kynningar (síðdegisdagskrá)

Mál- og vinnustofur 12.45-13.45

Unnið er að því að laga dagskrána að breyttri tilhögun vegna sóttvarnarráðstafana.


1. Geðrækt, forvarnir og stuðningur við nemendur (útsending í streymi)

Embætti landlæknis hefur nýleg lokið umfangsmikilli vinnu við að gera tillögur til heilbrigðisráðherra um hvernig skólakerfið geti orðið vettvangur geðræktar, forvarna og stuðnings við nemendur. Meðal annars var lögð fyrir yfirgripsmikil könnun til að skoða hvernig leik-, grunn- og framhaldsskólar hér á landi eru þegar að vinna að þessum málum, hvar við stöndum vel og hvar við getum gert betur. Unnið var úr þessum niðurstöðum og tillögur um aðgerðir sendar til ráðherra sl. haust. Skýrslu um niðurstöður könnunarinnar er að finna hér – og aðgerðaáætlun er hér.

Umræðuna leiðir Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnisstjóri hjá Landlæknisembættinu.

2. Hvaða möguleika veitir snjalltæknin okkur til að koma betur til móts við fjölbreyttan nemendahóp? (Fjarfundur í Google Meets)

Dagskrá í umsjón kennsluráðgjafa í upplýsingatækni í skólastarfi í Kópavogi.

Í menntastefnu grunnskóla Kópavogs er lögð áhersla á breytta kennsluhætti. Aðgengi að snjalltækni hefur verið innleidd með því að afhenda nemendum í 5. -10. bekk spjaldtölvu (1:1) til eigin afnota. Áhrifin eru fyrst og fremst jákvæð þegar horft er til að nemendur hafa meira val um það hvernig þeir vinna verkefni og á hvaða hátt. Litið er svo á að spjaldtölvan sem slík sé ekki verkefni, heldur verkfæri til náms. Nemendur læra að hægt er að sýna fram á hæfni á fjölbreyttan hátt og kennarar læra að hægt er að meta hæfni á margbreytilegri hátt í fjölbreyttum nemendahópi.

Breyttir kennsluhættir þar sem tæknin er höfð aðgengileg og er notuð við nám og kennslu, miðar að því að undirbúa nemendur til framtíðar en ekki fortíðar. Með fjölbreyttara vali um leiðir til náms og tæknilausnum er hægt að koma betur til móts við nemendur með ólíkar forsendur. Farið verður yfir nokkur dæmi um fjölbreytta möguleika til náms með tækni í skóla fyrir alla.

Leiðbeinendur: Bergþóra Þórhallsdóttir verkefnisstjóri UT í skólastarfi Kópavogsbæjar, Kristín Björk Gunnarsdóttir og Sigurður Haukur Gíslason UT kennsluráðgjafar grunnskóladeildar Kópavogsbæjar.

3. Leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi (fjarfundur í Zoom)

Að beiðni Mennta- og menningarmálaráðuneytisins var árið 2019 þróaður stuttur, hagnýtur leiðarvísir fyrir kennara og starfsfólk skóla og frístundaheimila, uppalendur og stjórnendur, um einfaldar og flóknari leiðir til að styðja við móðurmál og virkt fjöltyngi barna og ungmenna. Í upphafi greinir leiðarvísir frá rétti barna og ungmenna að móðurmáli(-um) sínu(m) og skilgreinir flókin hugtök á borð við móðurmál og virkt fjöltyngi. Í vinnustofu verða kynntar einfaldar og flóknar leiðir til að styðja við tungumál og fjöltyngi í starfi með grunnskólanemendum. Þátttakendur fræðast um tungumálastefnu heimila og skóla og skoða sjálfir þær gagnlegar slóðir sem leiðarvísir kynnir.

Leiðbeinandi: Renata Emilsson Pesková, doktorsnemi og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Hákon Sæberg Björnsson, kennari í Árbæjarskóla.

4. Læsisfimman (fjarfundur í Zoom)

Læsisfimman er kennsluskipulag sem byggist á sjálfstæðum lestri, ritun, félagalestri, hlustun á lestur og orðavinnu. Aðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms í skólum hér á landi og þykir skila góðum árangri.

Í þessari vinnustofu mun Ólöf Kristín kynna aðferðina en hún hefur mikla reynslu af notkun hennar og hefur leiðbeint kennurum í mörgum skólum um innleiðingu hennar. Sjá nánar um læsisfimmuna hér.

Leiðbeinandi: Ólöf Kristín Knappett Ásgeirsdóttir kennari við Grunnskólann í Hveragerði. Ólöf Kristín hefur menntað sig og sérhæft í þessari aðferð, ásamt Stærðfræðiþrennunni, og heldur úti fjölmennum Facebook hóp um þessar aðferðir.

5. Kynning á þróunarverkefninu Allir með í Hagaskóla  (upptaka verður aðgengileg á ráðstefnuvefnum)

Kynning á þróunarverkefninu Allir með í Hagaskóla sem er valáfangi fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Markmið valáfangans er að deila áhugamálum og unglingamenningu með nemendum af erlendum uppruna, eða þeirra sem læra íslensku sem annað tungumál í skólanum. Nemendur sem hafa íslensku sem annað tungumál kynnast íslenskum unglingum, þjálfast í íslensku talmáli og samskiptum og öðlast innsýn í menningarheim íslenskra unglinga. Íslenskir nemendur kynnast nemendum frá ólíkum menningarheimum og öðlast þjálfun í samskiptum og félagsfærni.

Í Allir með er lögð sérstök áhersla á að rjúfa félagslega einangrun nemenda af erlendum uppruna á markvissan hátt og veita þeim stuðning í námi og félagslífi. Einnig að gefa íslenskum nemendum tækifæri til að kynnast þessum samnemendum sínum á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt og stuðla þannig að samfélagslegri þátttöku þeirra og vellíðan í skólanum. Nemendur fá sjálfir tækifæri til að móta námskeiðið á hugmyndafundi þar sem áætlun fyrir veturinn verður rædd og ákveðin á lýðræðislegan hátt.

Umsjón: Stefán Gunnar Sigurðsson, forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Frosta, Sigríður Nanna Heimisdóttir, deildarstjóri í Hagaskóla og Þorbjörg Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun.

6. Gagnvirkt ferðalag um heim einhverfunnar og annars konar skynjun, dýpkar skilning og breytir viðhorfum – (fjarfundur í Zoom)

Gagnvirkt ferðalag um heim einhverfunnar og annars konar skynjun. Í vinnustofunni fer Aðalheiður með ykkur í ferðalag innávið og leyfir ykkur að reyna á eigin líkama hvernig annars konar skynjun getur verið áskorun og styrkleiki í dagsdaglegu lífi fyrir börnin okkar sem eru á einhverfurófi, með ADHD eða þau sem eru “high sensitive”. Í vinnustofunni fáum við matreidd fræði taugakerfisins á skemmtilegan og frumlegan hátt og sem gagnast öllum sem vinna með börn. Við öðlumst samkennd, virðingu og finnum skapandi lausnir. Fyrirlesturinn er sjónrænn, hvetjandi og hlý upplifun.

Leiðbeinandi: Aðalheiður Sigurðardóttir, stofnandi Ég er unik og samskiptaráðgjafi hjá Tröppu efh.

7. Kynning á stoðþjónustu í Brekkubæjarskóla (útsending í streymi)

Í Brekkubæjarskóla hefur á undanförnum árum verið leitað leiða til að þróa stoðþjónustuna til að koma betur til móts við fjölbreytta nemendahópa. Áhersla hefur verið lögð á að veita þjónustu/stuðning út frá þörfum nemenda, frekar en að láta greiningar stýra þjónustunni. Þróuð voru þverfagleg árgangateymi sem samanstanda af umsjónarkennurum, fagaðilum stoðþjónustu og stuðningsfulltrúum sem eru að mestu sjálfbær um þjónustu við nemendur árgangsins. Fyrirkomulagið hefur gefið góða raun og skilað sér í heildstæðri þjónustu og sameiginlegri ábyrgð á námi allra nemenda.

Málshefjandi: Dagný Hauksdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu í Brekkubæjarskóla.


Mál og vinnustofur 14.00-15.00


1. Stöðumat fyrir nýkomna nemendur af erlendum uppruna (útsending í streymi)

Í þessari málstofu kynna umsjónarmenn Stöðumat fyrir nýkomna nemendur af erlendum uppruna sem þýtt hefur verið á íslensku að sænski fyrirmynd. Stöðumatið er þrepamiðað kennslufræðilegt mat á fyrri þekkingu og reynslu nemenda og stöðu í læsi og talnaskilningi. Með fyrirlögn á Stöðumatinu og þeim upplýsingum sem það gefur er lagður grunnur að öflugu námi og kennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna þar sem byggt er á styrkleikum þeirra og fyrir þekkingu. Stöðumatið nýtist m.a. í skipulagningu náms m.t.t. kennsluaðferða, vali á námsefni, námsmats og væntinga til nemenda með margvíslegan tungumála- og menningarbakgrunn. Stöðumatið er hægt að leggja fyrir nemendur á öllum stigum leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Umsjón: Aneta Figlarska, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir.

2. Margt smátt … (upptaka verður aðgengileg á ráðstefnuvef) 

Þessi kynning snýst um hvernig starfsfólk IÐUNNAR – fræðsluseturs hefur þróað notkun á myndskeiðum í námi og kennslu og þá sérstaklega þá verkferla og tækni sem nýttar hafa verið til að vinna slíkt efni. Notast er við það sem kalla mætti stærri tækjabúnað, s.s. myndavélar og vídeóvélar, ljósabúnað og hljóðupptökubúnað, en einnig smærri tæki, s.s. snjallsíma, smámyndavélar, smáljós og allskonar smærri tækjabúnað. Kynnt verða fjölmörg dæmi!

Leiðbeinendur: Fjóla Hauksdóttir verkefnisstjóri og Sigurður Fjalar Jónsson markaðs- og vefstjóri hjá Iðunni.

3. Rýnt í myndbönd úr kennslustundum í 8. bekk á Íslandi: Hvað má læra um gæði kennslu út frá markmiði kennslustundar, endurgjöf og vitsmunalegri áskorun (fjarfundur í Zoom)

Vinnustofan byggir á gögnum úr rannsókninni Gæði kennslu á Norðurlöndum (QUINT/Quality in Nordic Teaching) en rannsóknarhópur við HA og HÍ vinnur að rannsókninni hér á landi. Tilgangur hennar er meðal annars að skilja hvað felst í gæðum kennslu og fá samanburð á kennslustundum milli Noregs, Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar og Íslands. Gagna var aflað á Íslandi í tíu grunnskólum í samfélagsfræði, íslensku og stærðfræði í 8. bekkjum, með myndbandsupptökum, spurningalistum til nemenda og viðtölum við kennara.

Í vinnustofunni verður leitast við að kryfja og eiga samtal um nokkra þætti sem greining myndbandanna byggir á með það að leiðarljósi að stuðla að skilningi á því hvað felst í góðri kennslu. Tekin verða dæmi úr myndböndunum og rýnt í eftirfarandi þætti: Markmið kennslustundar, endurgjöf og vitsmunaleg áskorun. Umræður vinnustofunnar munu snúast um vægi þessara þátta í kennslu og birtingarmynd þeirra í tilteknum myndskeiðum. Leiðarstef í umræðunni verður: Hvað getum við lært af þessum tilteknu dæmum úr kennslustundum? Hvernig draga þau fram mikilvæga þætti sem varða gæði kennslu fyrir fjölbreytta nemendahópa?

Leiðbeinendur: Jóhann Örn Sigurjónsson, Valgarður Reynisson og félagar í QUINT hópnum.

4. Nemendur eru alls konar og þurfa því allskonar námstilboð (útsending í streymi)

Kennarar í Norðlingaskóla segja frá því hvernig þeir mæta fjölbreytilegum nemendahópi.  Stoðþjónusta skólans kynnt. Kennarar á unglingastigi segja frá hvers kyns skólasamningum, styttum skóladögum, atvinnutengdu námi, verkviti, tæknilausnum og fleiru.  Yngri barnakennarar og íþróttakennarar segja frá sérstökum hreyfistundum fyrir fatlaða nemendur, sem hafa nú teygt sig yfir á miðstig. Læsisverkefni um allan skóla verða kynnt, fyrirhuguð samvinna við leikskólann um lestur í hverfinu okkar,  svo og markviss notkun á Upright verkefninu til að efla vellíðan barna, sjálfsmynd þeirra og seiglu.

Umsjón: Jónína Rós Guðmundsdóttir, aðstoðarskólastjóri Norðlingaskóla.

5. Samstarf í námi og leik í Krikaskóla

Dagskrá kennara í Krikaskóla

Samvinna 5 og 6 ára barna (fjarfundur í Google Meets)

Krikaskóli er samþættur leik-og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 2-9 ára. Samvinna þessa aldurshóps hefur verið við lýði frá upphafi skólans en skólaárið 2019 – 2020 var ákveðið að útvíkka það samstarf og auka það til muna. Skipað var faglegt teymi grunn- og leikskólakennara, ásamt öðrum starfsmönnum sem sinnt hafa verkefninu af alúð. Faglegt samstarf leikskóla- og grunnskólakennara hefur verið lærdómsríkt og dýrmætt.

Börnin vinna saman í flestum stundum dagsins, sem og í sérgreinum og útinámi. Lögð er áhersla á samvinnu, samþættingu námsgreina og fjölbreyttar leiðir til náms. Börnin fá að una sér í þeim verkefnum sem lögð eru fyrir og jafnframt fá þau oft á tíðum að velja sín verkefni sjálf, t.d. í ákveðnum stundum sem í daglegu tali kallast „flæði“. Þá eru valin verkefni í boði sem kennarar hafa skipulagt og undirbúið, verkefnin taka ávallt mið af þeim markmiðum sem við erum að vinna með hverju sinni í íslensku, stærðfræði og/eða þemavinnu. Börnin byrja í ákveðnu verkefni og fá að klára það án þess að þurfa að skipta um verkefni eftir x tíma eins og tíðkast t.d. í stöðvavinnu eða hringekju. Leikurinn er mikilvægur þáttur í skólastarfinu og eru flest tækifæri sem gefast nýtt til að flétta leikinn inn í nám barnanna. Skapandi vinna skipar stóran sess í náminu og er sköpun stór hluti af verkefnum barnanna. Börn á þessum aldri eiga margt sameiginlegt og auðveldlega er hægt að skipta þeim í minni hópa eftir þroska og áhuga. Stundum vinna árgangarnir sér ef verkefnin eru þannig, t.d. hvað varðar námsmat í íslensku (hraðlestur og lesskimun) en oftar en ekki er samvinna í gangi. Kennsluáætlanir eru gerðar fyrir hvorn árgang þar sem markmið hverrar annar koma fram og sameiginlegt vikuplan unnið út frá þeim. Þar kemur fram við hvað er verið að fást hverju sinni og hverjar áherslurnar eru.

Umsjón: Svava Björk Ásgeirsdóttir, grunnskólakennari, Hlín Ólafsdóttir, grunnskólakennari, Guðrún Ragna Emilsdóttir, leikskólakennari og Kristjana Steinþórsdóttir, leikskólakennari.

Upplifun og vellíðan: Ævintýraferðir og útinám (upptaka verður aðgengileg á ráðstefnuvefnum)

Reglulegar ævintýraferðir barnahópa út í náttúruna eru fastur liður í starfi Krikaskóla. Þar fær sjálfsprottinn frjáls leikur að njóta sín og það nám sem á sér stað í gegnum leikinn. Lögð er áhersla á afslappað andrúmsloft, sveigjanleika og að njóta augnabliksins. Uppgötvunarnám hvers og eins fær tíma og næði. Styrking sjálfsmyndar og efling félagsfærni skipa stóran sess. Alltaf er lögð áhersla á vellíðan, umhyggju og sköpun.

Umsjón: Sveinlaug Sigurðardóttir, útikennslukennari í Krikaskóla.

6. Samvinnunám: Lykill að lýðræðislegum starfsháttum í námi og kennslu (fjarfundur í Zoom)

Markmið vinnustofunnar er að fara í gegnum lýðræðislegar kennslu- og námsaðferðir sem allar miða að því að byggja upp jákvæðan bekkjarbrag og samvinnu og samvirkni í hópum. Aðferðin nýtist í öllum námsgreinum. Í vinnustofunni verður leitast við því að leiða þátttakendur í gegnum aðferðir og tækni sem styðja jákvæða og uppbyggilega bekkjarmenningu. Aðferðirnar sem unnið verður með vinna gegn hinu dæmigerða valdaójafnvægi í nemendahópum og stuðla að samvinnu í hópum. Í því sambandi verður unnið út frá fjórum meginreglum lýðræðislegra kennsluhátta sem hverfast allar um jákvætt sjálfstæði nemenda, einstaklingsábyrgð þeirra, samhliða virkni og jafnt aðgengi og jafna þátttöku nemenda. Aðferðirnar koma til með að nýtast kennurum með beinum hætti í eigin kennslu.

Leiðbeinendur: Guðrún Ragnarsdóttir lektor við Menntavísindasvið HÍ og Súsanna Margrét Gestsdóttir aðjúnkt við Menntavísindasvið.

7. Stærðfræðiþrennan (fjarfundur í Zoom)

Stærðfræðiþrennan skiptist í þrjú viðfangsefni: sjálfstæða stærðfræði, stærðfræðiritun og félagsstærðfræði. Aðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms í skólum hér á landi og þykir skila góðum árangri.

Í þessari vinnustofu mun Ólöf Kristín kynna aðferðina en hún hefur mikla reynslu af notkun hennar og hefur leiðbeint kennurum í mörgum skólum um innleiðingu hennar.

Nánari lýsing á Stræðfræðiþrennunni er hér.

Leiðbeinandi: Ólöf Kristín Knappett Ásgeirsdóttir er kennari við Grunnskólann í Hveragerði. Hún hefur menntað sig og sérhæft í þessari aðferð, ásamt Læsisfimmunni, og heldur úti fjölmennum Facebook hóp um þessar aðferðir.

8. Samvinna og lausnaleit með Breakout EDU (fjarfundur í Zoom)

Vinnustofa um Breakout Edu. Viltu efla þrautseigju, lausnamiðun, samvinnu og samræður í fjölbreyttum nemendahóp og kenna nemendum að hugsa út fyrir kassann? Þá er Breakout Edu frábær viðbót í kennslustofuna þína. Breakout Edu svipar til „escape“ leikja. Markmiðið er að leysa þrautir áður en tíminn rennur út. Til þess fá nemendur vísbendingar sem hjálpa þeim að opna lása. Breakout Edu hentar öllum aldri, öllum námsgreinum og er frábær skemmtun.

Leiðbeinandi: Hildur Arna Håkansson kennari í Skarðshlíðarskóla, Hafnarfirði.

9. Læsisfimman og CAFE innleitt í 1-7. bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar (upptaka verður aðgengileg á ráðstefnuvefnum)

Læsisfimman er kennsluskipulag yfir kennsluhætti í læsi sem byggist á lýðræðislegu umhverfi, sjálfstæði og sjálfsaga nemenda í námi sem fer fram í sjálfstæðum lestri, ritun, para- eða félagalestri, orðavinnu og hlustun.

Í þessari vinnustofu munu Maríanna, Kristín Helga og Hugrún frá Grunnskóla Snæfellsbæjar segja frá læsisfimmunni, CAFE markmiðasetningu og hvernig þetta kennsluskipulag var innleitt í skólann frá 1.-7.bekk. Auk þess verður komið inn á hvernig hægt er að nýta skipulagið í öðrum námsgreinum en íslensku. Sjá einnig hér.

Leiðbeinendur: Maríanna Sigurbjargardóttir, Kristín Helga Guðjónsdóttir kennarar við Grunnskóla Snæfellsbæjar ásamt Hugrúnu Elísdóttur verkefnastjóra við Grunnskóla Snæfellsbæjar. Fyrir tveimur árum fóru þrettán kennarar frá skólanum á ráðstefnu/námskeið hjá höfundi læsisfimmunnar til Denver og kynntu sér skipulag hennar betur. Þá hefur Maríanna lokið meistararitgerð sem byggist á rannsókn um hvernig megi nota kennsluskipulag fimmunnar í raungreinum. Þá hefur Hugrún kynnt sér fimmuna vel og var leiðandi í að innleiða hana í skólann.