Um Læsisfimmuna og Stærðfræðiþrennuna

Á ráðstefnunni ÖLL BÖRNIN OKKAR, 14. ágúst nk. mun Ólöf Kristín Knappett Ásgeirsdóttir, standa fyrir vinnustofum um Læsisfimmuna og Stærðfræðiþrennuna

Læsisfimman

Læsisfimman er kennsluskipulag sem byggist á sjálfstæðum lestri, ritun, félagalestri, hlustun á lestur og orðavinnu. Aðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms í skólum hér á landi og þykir skila góðum árangri.

Í sjálfstæðum lestri er unnið með lesskilning, lesfimi, nákvæmni og orðaforða.

Unnið er með þá alla þá þætti sem snúa að sögugerð og skriflegri tjáningu  í vinnu að ritun Félagalestur snýst um lesskilning, lesfimi og framsögn, auk þess að hlusta á aðra lesa. Í hlustun á lestri er unnið með tengingar á milli hlustunar og leturs með því að hlusta á fyrirmyndarlestur. Unnið er með tungumáið á fjölbreyttan máta í orðavinnu t.d. með málfræðiþætti og stafsetningu.

Í læsisfimmunni eru þrír lykilþættir: að byggja upp vinnuúthald, bjóða upp á fjölbreytt val og að efla sjálfstæði nemenda.

Við innleiðingu fara fyrstu vikurnar í það að byggja upp úthald í sjálfstæðum lestri og þar á eftir er úthald byggt upp í ritunarvinnunni. Þar næst fá nemendur að kynnast viðfangsefnunum í valhlutanum. Fyrst er það félagalestur, næst orðavinna og að lokum er það hlustun á lestur. Þegar öll viðfangsefnin í valinu eru komin í gang og nemendur hafa náð nokkru sjálfstæði við námið læra þeir að velja viðfangsefni sem henta og nýtast þeim beint í náminu.

Þegar nemendur eru að vinna sjálfstætt vinnur kennarinn með einstaklingum og litlum hópum að þeim verkefnum sem þörf er á til þess að bæta skilning þeirra og árangur. Á þennan hátt getur kennarinn betur mætt þörfum hvers nemanda.

Auk þess fylgir Læsisfimmunni ákveðnar hegðunarvæntingar sem hjálpa nemendum að halda sig betur að verki og nýta tíma sinn vel. Að byggja upp námssamfélag er einnig mikilvægur þáttur, því við erum að læra saman þó við séum að læra að vera sjálfstæð.

Sjá einnig um Læsisfimmuna þessa grein í Skólaþráðum:

Stærðfræðiþrennan  

Stærðfræðiþrennan skiptist í þrjú viðfangsefni: sjálfstæða stærðfræði, stærðfræðiritun og félagsstærðfræði. Aðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms í skólum hér á landi og þykir skila góðum árangri.

Sjálfstæð stærðfræði og félagastærðfræði snúast um hlutbundna vinnu með hugtök og færniþætti í stærðfræði. Vinnan fer oftast fram með spilum, þrautum og námsleikjum í spjaldtölvum. Byggt er á einstaklings-, para- og hópavinnu.

Í stærðfræðiritun tjá nemendur sig um skilning sinn og rökhugsun. Unnið er með ákveðin hugtök og stærðfræðisögur. Í stærðfræðiþrennunni eru þrír lykilþættir: að byggja upp vinnuúthald, að bjóða upp á fjölbreytt val og að efla sjálfstæði nemenda.

Fyrstu vikur innleiðingar fara í það að byggja upp vinnuúthald í sjálfstæðri stærðfræði. Þegar nemendur hafa náð nokkru úthaldi og sjálfstæði fá þeir að kynnast valþættinum sem fellst eins og er í því að velja á milli tveggja til þriggja viðfangsefna. Nemendur læra að velja viðfangsefni sem henta þeim og nýtast þeim beint í náminu.

Þegar nemendur eru að vinna sjálfstætt vinnur kennari með litlum hópum eða einstaklingum til að auka skilning þeirra og hæfni í þeim viðfangsefnum sem þeir þurfa að skoða betur. Á þennan hátt getur kennarinn betur mætt þörfum hvers nemanda.

Auk þess fylgja stærðfræðiþrennunni ákveðnar hegðunarvæntingar sem hjálpa nemendum að halda sig betur að verki og nýta tíma sinn vel. Að byggja upp námssamfélag er einnig mikilvægur þáttur því við erum að læra saman þó við séum að læra að vera sjálfstæð.

Scroll to Top