
Í þessari vinnustofu fjallar Eyþór Máni Steinarsson, verkefnastjóri Skema, um hvernig er hægt að nýta sér forritun sem kennslutæki í nánast hvaða fagi sem er. Þátttakendur fá sérstaklega að kynnast Scratch og hvernig hægt er að nota það í verkefnavinnu með nemendum á yngsta eða miðstigi. Scratch er einfalt forritunarumhverfi hannað fyrir börn en þar draga notendur saman kubba til þess að búa til forrit frekar en að þurfa að skrifa kóða. Þetta gerir það að verkum að nemendur þurfa einungis að vera læsir til þess að geta byrjað að læra að forrita. Í Scratch er einnig mikil áhersla á frelsi til sköpunar, sem gerir það að verkum að hægt er að nota það til þess að kenna hin ýmsu fög en þá læra nemendur á forritun samhliða því fagi sem er verið að kenna.
Í vinnustofunni munu þátttakendur læra grunnatriði forritunar og hvernig umhverfi Scratch virkar. Einföld verkefni verða skoðuð á forritunarlegan hátt og þátttakendur búa til einfalda leiki. Að því loknu verða skoðið dæmi um verkefni sem er hægt að vinna í íslensku, ensku, samfélagsfræði eða tónfræði í Scratch.
Aftur á aðalsíðu ráðstefnunnar