Snjalltækni í kennslu náttúrugreina

Verklegar æfingar og tilraunir skipa stóran sess í kennslu náttúrugreina, það að mæla, skoða og skynja fyrirbæri gerir þau raunverulegri og áhugaverðari fyrir nemendur.  Í vinnustofunni verður stutt umfjöllun um möguleika og  kosti snjalltækja við ýmsa vinnu í náttúrufræðikennslu, en framboð á íhlutum og forritum fyrir snjalltæki hefur aukist verulega.  Í vinnustofunni fá þátttakendur síðan tækifæri til að prófa, mæla og skoða sjálfir. 

Einfaldar æfingar verða framkvæmdar þar sem notast verður m.a. við skynjara er mæla spennu, straum, sýrustig og kraft. 

Æskilegt er að þátttakendur komi með spjaldtölvur þar sem búið er að hlaða niður SPARKvue forritinu  fyrir IOS eða fyrir android.  

Leiðbeinendur:

Ásgerður Helga Guðmundsdóttir er kennari, verkefnastjóri tölvumála og kennsluráðgjafi í Salaskóla í Kópavogi. Ásgerður hefur kennt eðlisvísindi til margra ára og notar mikið upplýsingatækni í kennslu sinni.
Soffía Óladóttir er viðskiptastjóri menntastofnana hjá A4. Hún hefur margra ára reynslu, fyrst hjá Skólavörubúðinni, þar sem hún hóf störf fyrir rúmum 13. árum og varð viðskiptastjóri menntastofnana hjá A4 þegar Skólavörubúðin rann inn í A4. Sem viðskiptastjóri fylgist hún grannt með þróun kennsluhátta og er tengiliður við skólasamfélagið.
Svava Pétursdóttir er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún kennir einkum kennslufræði í tengslum við kennslu yngri nemenda í grunnskóla, náttúrugreinar og upplýsingatækni. Sjá á vefsíðu hennar https://svavap.wordpress.com/

 


    

Aftur á aðalsíðu ráðstefnunnar