Stafrænt læsi: Regnhlíf nútíma samskipta og tjáningar

Aukin notkun og vinsældir stafrænnar miðlunar í samskiptum hafa leitt til þess að víða um heim hefur þurft að endurmeta læsi og hlutverk þess í menntun. Þetta nýja læsi er þó enn í deiglu fræða og þess samhengis sem það þróast í, bæði þjóðlega og alþjóðlega. Læsi er að breytast og flóra þess stækkar stöðugt með nýjum háttum og möguleikum til tjáningar. Til að börn þrífist í flókinni stafrænni veröld þurfa þau leiðbeiningu og þjálfun í fjöllæsi, meðfram venjubundinni lestrarkennslu.  Menntayfirvöld í flestum ríkjum halda sig þó við skilgreiningar á hefðbundnu læsi á texta og styrkingu þeirrar færni sem þarf til að nemendur geti tileinkað sér það og sinnt hefðbundnu námi. Kennarar lenda því á milli í umræðu þar sem takast á ólík sjónarhorn á læsi, sjónarhorn stjórnmálamanna og stefnumótenda og róttækari afstaða fræðafólks sem telja að nýjar læsiskenningar geti veitt raunhæfari sýn á læsi í dag og stuðlað að þjálfun 21. aldar færni og valdeflingu ungs fólks.

Í þessari málstofu verður gerð tilraun til að velta upp ýmsum flötum á þessari stöðu og nýlegum kenningum um stafrænt læsi, en einnig hvatt til umræðu um gagnsemi þeirra í okkar íslenska samhengi.


Skúlína Hlíf Kjartansdóttir lauk B.Ed. námi í náms- og kennslufræðum frá KHÍ 1982 og ári síðar diplómanámi í handlistum. Þá lauk hún BA prófi í þrívíddarhönnun við Camberwell College of Art 1989 og 1995 MA prófi í Site-Specific Sculpture frá Wimbledon College of Art. Hún hefur kennt við grunnskóla og framhaldsskóla og starfar nú sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, þar sem hún hefur stundað doktorsnám undanfarin ár meðfram starfi. Rannsóknir hennar hafa verið á sviði fartækni og farnáms, nýtingu snjalltækni í skólastarfi og um skapandi starf með stafrænni tækni í sköpunarsmiðjum. Vefsíða: https://hi.academia.edu/SkulinaKjartansdottir


Aðalsíða ráðstefnunnar