Sóknarfæri í námi og kennslu – 2012

Félag um starfendarannsóknir og Samtök áhugafólks um skólaþróun

Ráðstefna um starfendarannsóknir: Sóknarfæri í námi og kennslu

13. apríl 2012 kl. 14:10

Staðsetning: Verzlunarskóli Íslands

Ráðstefnustjóri: Björn Gunnlaugsson deildarstjóri við Norðlingaskóla.

Dagskrá

Kl. 14:10 Setning

Kl. 14:15 Starfendarannsóknir til valdeflingar
Edda Kjartansdóttir, forstöðumaður Símenntun – rannsóknir – ráðgjöf, Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Þegar kennarar fá ekki tækifæri til að hafa áhrif  á eigin störf er hætt við að þeir upplifi sig sem óábyrga, valdalausa leiksoppa. Ef kennarar spyrna ekki við fótum er hætt við að aðrir hópar sérfræðinga nái af þeim völdum og kennarastéttin hætti að vera fagstétt og verði þess í stað millistykki milli sérfræðinga  og nemenda.  Starfendarannsóknir geta nýst kennurum sem afl í valdabaráttu um þekkinguna á fræðum um nám og kennslu. Enda er ein möguleg leið fyrir kennara til að valdefla sig að stunda rannsóknir á eigin störfum til að  auka áreiðanleika og réttmæti reynsluþekkingar sinnar.

Kl. 14:35 Hvaða skilning leggja nemendur í orðið ‚nemendasjálfstæði‘?
Sandra Anne Eaton, enskukennari við Verzlunarskóla Íslands

Í erindi mínu mun ég fjalla um rannsóknaverkefni sem ég lagði fyrir nemendur í 6. bekk til að fá þau til að hugsa um hvaða þýðingu það hefur að vera ábyrgur nemandi. Hluti af rannsókninni var að ræða við nemendur sjálfa um hvernig best væri að hjálpa þeim að taka ábyrgð á eigin námi sem síðan kemur þeim til góða í háskólanámi. Rannsóknin tengdist vinnueinkunn nemenda í lok áfangans. Í ljós kom að það sem skipti nemendurna mestu máli var ferlið sjálft frekar en einkunnin sem þau fengu.

Kl. 14:55 Umræður

Kl. 15:20 Kaffihlé

Kl. 15:35 „…mér finnst skemmtilegra í vinnunni“
Elva Önundardóttir, leikskólakennari Brákarborg

Sagt er frá starfendarannsókn sem er byggð á þróunarverkefninu „Þetta er besti dagur lífs míns“: Samfélagið í einingakubbunum sem unnið var í leikskólanum Brákarborg í Reykjavík árin 2007–2009. Rannsóknin beindist að því að skoða hvaða áhrif það hefur á leikskólastarf að kennarar þrói kennsluhætti sína með því að tengja leik og nám barna við samfélagið. Í rannsókninni var annars vegar skoðað hvernig samfélagið, sem börnin lifa í, birtist í leik þeirra með einingakubbana. Hins vegar var skoðað hvernig kennurunum tókst að efla sig í hugmyndafræðinni sem liggur að baki einingakubbunum og tengist námi barna um samfélagið. Kennarar Brákarborgar voru meðrannsakendur og börnin í Brákarborg voru þátttakendur í rannsókninni.

Kl. 15:55 Tvær starfendarannsóknir um samvinnunám í grunnskóla
Hildigunnur Bjarnadóttir, grunnskólakennari Öldutúnskóla og Margrét Sverrisdóttir, deildarstjóri Öldutúnsskóla

Um tvær sjálfstæðar rannsóknir er að ræða sem tengjast á þann hátt að rannsakendurnir sem starfa við sama grunnskóla tóku báðir þátt í þróunarvinnu í samvinnu við aðra kennara um að auka hlut samvinnunáms í skólastarfinu. Önnur rannsóknin er rannsókn umsjónarkennara á miðstigi þar sem hann beinir sjónum að eigin kennsluháttum og skoðar hvernig honum tekst að auka samvinnunám í kennslu með það að markmiði að skapa meiri fjölbreytni og reyna á þann hátt að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda.  Hin rannsóknin er rannsókn deildarstjóra sem skoðar hvernig hópi kennara gekk að tileinka sér hugmyndafræði og aðferðir samvinnunáms og miðla reynslu sinni innan hópsins sem hittist reglulega skólaárið 2010-2011. Hann skoðar einnig hvernig honum gekk að leiða þessa þróunarvinnu.

Kl. 16:15 Umræður

Kl. 16:40 Ráðstefnulok

Kl. 16:45 Aðalfundur Félags um starfendarannsóknir

Ókeypis aðgangur

 

Scroll to Top