Stóru málin í skólastofunni

Á ársþingi Samtaka áhugafólks um skólaþróun, í Rúgbrauðsgerðinni, föstudaginn 4. nóvember 2016 (kl. 14.00-18.00), fór fram umræða um stóru málin! Hvernig á að fjalla í skólum um flóttamannavandann, loftslagsmálin, stríð, hryðjuverk, fátækt, jafnréttismál, framtíðina? Ráðstefnan var með þjóðfundasniði og byggðist á virkri þátttöku fundargesta þar sem leitast var við að svara þessari spurningu.

Umræðustjóri var Sigurborg Kr. Hannesdóttir.

Stutt erindi fluttu Anna Lára Steindal, Ingvi Hrannar Ómarsson, Katrín Jakobsdóttir og Stefán Jón Hafstein

Erindi Stefáns Jóns er hér!

Kynning var á nokkrum skólaverkefnum þar sem þessi mál hafa verið á dagskrá

Bryndís Valsdóttir heimspekikennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Súsanna Margrét Gestsdóttir sögukennari kynna valáfanga um mannréttindi. Hann fer fram í samstarfi við Rauða kross Íslands enda felst stór hluti áfangans í sjálfboðavinnu á vegum hans. Í bóklega hlutanum, sem fram fer í skólanum, kynnast nemendur þróun mannréttindahugmynda og stöðu mála á okkar dögum, einkum hvað varðar flóttamenn á Íslandi og annars staðar.

Edda Kristín Hauksdóttir, kennari í Hagaskóla kynnir verkefni sem byggist á því að nemendur í 10. bekk stofna stjórnmálaflokk með nafni, merki flokksins og stefnuskrá. Nemendur útbúa kynningu á flokknum sínum og undirbúa framboðsræðu. Framboðið er kynnt á framboðsfundi í bekknum sem lýkur með kosningum.

Jóhann Björnsson, lífsleikni- og heimspekikennari í Réttarholtsskóla, kynnir námsefni: Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki, Erum við öll jöfn? Kynjamál og heimspeki, Það er auðveldara að kljúfa atóm heldur en fordóma. Námsefni í fjölmenningarfærni handa efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum (meðhöfundar eru Björk Þorgeirsdóttir og Þórður Kristinsson) og 68 æfingar í heimspeki.

Kolbrún Svala Hjaltadóttir, kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingatækni í Flataskóla, kynnir verkefni tengt umhverfis- og loftslagsmálum sem byggist á samvinnu við vísindamenn sem koma í heimsókn í skólann og fræða nemendur hver um sitt vísindafag. Verkefnið hefur verið unnið síðast liðin 3 ár með nemendum í sjötta og sjöunda bekk. Einnig hefur verkefnið verið unnið sem eTwinningverkefni með ítölskum kennurum og nemendum.

Lilja M. Jónsdóttir, lektor við Kennaradeild Háskóla Íslands: Stöðva gróðurhúsaáhrifin Golfstrauminn?

Lilja kynnir umhverfisverkefni sem unnið var með nemendum í 6. bekk grunnskóla um hugsanleg áhrif gróðurhúsalofttegunda á hitastig jarðar og þá um leið á ferð Golfstraumsins um Norður-Atlantshaf. Um er að ræða málefni líðandi stundar og mikið álitamál. Aðalnámskrá grunnskóla (2011) leggur einmitt áherslu á að hluti af því að læra í lýðræði sé að gefa nemendum tækifæri til að takast á við málefni líðandi stundar sem og álitamál, þar sem þeir kynnast ólíkum skoðunum, þjálfast í að skiptast á skoðunum og í gagnrýninni hugsun.

Brot úr atriðum úr Skrekk

Hlíðaskóli: sjá hér: https://vimeo.com/190109498

Scroll to Top