ÞARF SKÓLINN AÐ VERA SKEMMTILEGUR? – 2013

Ársþing Samtaka áhugafólks um skólaþróun var haldið dagana 8.–9. nóvember. Þema þingsins var:

ÞARF SKÓLINN AÐ VERA SKEMMTILEGUR? NÁMSÁHUGI OG ÁRANGUR Í SKÓLASTARFI

Þingið var haldið í Hagaskóla Reykjavík og hófst með aðalerindum föstudaginn 8. nóvember kl. 14.00. Á laugardeginum voru fjölbreyttar kynningar, örnámskeið, vinnustofur og málstofur.

Á næstu dögum verður efni frá þinginu sett inn á þessa vefsíðu!

Ráðstefnustjóri: S.Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri Hagaskóla

Dagskrá (sjá einnig tímasetta dagskrá hér)

Föstudagur 8. nóvember

14.00 Setning

14.10-15.00 Aðalerindi:

Amalía Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

HVAÐ VITUM VIÐ UM NÁMSÁHUGA ÍSLENSKRA SKÓLABARNA?

Amalía segir frá niðurstöðum þriggja rannsókna sem tengjast námsáhuga og ræðir þýðingu þeirra.

Skjásýning Amalíu

15.30-17.00

Erindi og pallborð:

15.30-16.00 Guðrún Sólveig, leikskólastjóri í leikskólanum Rauðhóli

JÁ! LEIKSKÓLI ÞARF AÐ VERA SKEMMTILEGUR

Guðrún Sólveig ræðir menningu leikskólans Rauðhóls. Þar sem mikil trú er á því að hver einstaklingur sé frábær og hafi áhuga og virkni til leiks og starfs.

16.00-16.30 Guðmundur Grétar Karlsson, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja

SKEMMTILEGRI SKÓLI – SAGT FRÁ ÞRÓUNARVERKEFNI

Guðmundur segir frá skólaþróunarverkefninu FS – Skemmtilegri skóli sem unnið var af hópi kennara við Fjölbrautaskóla Suðurnesja 2011-2013. Meðal markmiða verkefnisins var að auka fjölbreytni í kennsluaðferðum, efla sjálfstæð vinnubrögð, ábyrgð nemenda á eigin námi og gagnrýna hugsun, auk þess stuðla að vinnugleði og vellíðan.

16.30-17.00 PALLBORÐSUMRÆÐUR

Þrjú ungmenni, þau Pála Margrét Gunnarsdóttir framhaldsskólanum á Laugum, Sigríður Helgadóttir, Menntaskólanum í Reykjavík og Hans Alexander Margrétarson Hansen, Fjölbrautaskóla Garðabæjar ræða spurninguna

ÞARF SKÓLINN AÐ VERA SKEMMTILEGUR?

Upptaka af framlagi þeirra er hér.

17.00-19.00

Móttaka í Safnaðarheimili Neskirkju.

Laugardagur 9. nóvember

Kl. 9.30-10.00

Erindi

Guðlaug Björgvinsdóttir, kennari í Norðlingaskóla:
„STRANGUR EN SAMT SVONA … LÉTTUR Í LUNDINNI“

Guðlaug segir frá niðurstöðum meistaraprófsrannsóknar sinnar á grunnskólakennurum sem þótt hafa skarað fram úr og náð góðum árangri í námi með nemendur sína. Í rannsókninni fylgdist Guðlaug með kennurunum á vettvangi og tók viðtöl við þá, nemendur þeirra og skólastjórnendur.

Kl. 10.20-11.20 og 11.40-12.40

Málstofur, vinnustofur, stutt námskeið (ath. að hér kunna að bætast við nokkrir dagskrárliðir)

Súsanna Margrét Gestsdóttir, framhaldsskólakennari við FÁ og aðjúnkt við HÍ

Á SAGA ENDILEGA AÐ VERA HANDA ÖLLUM?

Þegar framhaldsskólabraut var komið á fót við FÁ haustið 2010 var ákveðið að á meðal nýrra og sérhannaðra áfanga þar skyldi vera saga. Almennt er litið á hana sem hefðbundna lesgrein og því var spennandi að reyna að búa til áfanga handa nemendum sem margir hverjir óttast slíkar greinar. “Skemmtilegt” hefur verið leiðarljósið þau þrjú ár sem áfanginn hefur gengið og hefur verið reynt að kortleggja viðtökurnar.

Kristín Einarsdóttir íþrótta- og grunnskólakennari í Krikaskóla

LEIKUR AÐ LÆRA

Kristín kynnir kennsluaðferðina Leikur að læra sem hún hefur sett saman og þróað. Leikur að læra – kennsluaðferð fyrir tveggja til níu ára börn, þar sem bókleg fög eru kennd í gegnum leiki og hreyfingu á líflegan, skemmtilegan og árangursríkan hátt. Kynningin er bæði verkleg og bókleg þar sem farið er í gegnum Leik að læra í stærðfræði, íslensku, ensku, sem og með liti og form. Einnig mun Kristín kynna námsefnið 10 mín í krók – stærðfræði og 10 mín í krók – íslenska sem hún hefur þróað. Skemmtileg og lífleg kynning sem allir yngri barna kennarar hafa gaman af.

Gerður Bjarnadóttir framhaldsskólakennari og Helene Pedersen fagstjóri í Ferðamálaskólanum við Menntaskólann í Kópavogi

AÐ VIRKJA NEMENDUR ÞVERT Á NÁMSGREINAR – GRUNNÞÆTTIR MENNTUNAR VIÐ UPPHAF OG LOK BÓKNÁMS Í MENNTASKÓLANUM Í KÓPAVOGI 

Í Menntaskólanum í Kópavogi hefur verið unnið að breyttu námsskipulagi frá hausti 2008. Í nýjum brautarlýsingum eiga stúdentsefni að ljúka tíu f-einingum í menningarlæsi, tíu f-einingum í náttúrulæsi og fimm f-einingum í lokaverkefnisáfanga. Ástæðan er að efla færni nemenda í töluðu og rituðu máli, efla frumkvæði þeirra og sjálfstraust, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og undirbúa þá fyrir frekara nám eða atvinnulíf. Áfangarnir eru tilraun til að breyta skólastarfi í MK. Markmið þeirra er að efla skilning nemenda og samábyrgð á framtíð þeirra og komandi kynslóðar og þar með gera þá hæfari til að takast á við frekara nám eða atvinnulíf. Með tilkomu þeirra hafa kennara skapað nýtt verklag og hafa þeir aukið fjölbreytni í kennsluháttum. Þeir hafa reynt að nálgast þær kröfur sem settar eru fram í nýrri námskrá framhaldsskóla um grunnþætti menntunar.

Sara Dögg Svanhildardóttir, skólastýra við Vífilsskóla miðstigsskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ

MEÐ GLEÐI Í HJARTA

Eitt af megin stefjum Hjallastefnunnar er gleði; gleði barna og starfsfólks. Grunnskólar Hjallastefnunnar vinna markvisst að því að öll börn komi með gleði í hjarta í skólann sinn á degi hverjum. Það er ekki alltaf einfalt en verðugt verkefni sem hefur svo sannarlega áhrif á starfsumhverfi barnanna. Í erindinu verður gerð grein fyrir hvernig Hjallaststefnu grunnskólar leitast við að koma til móts við þessa mikilvægu þörf.

Kristín María Indriðadóttir þroskaþjálfi og grunnskólakennari og fyrrv. deildarstjóri Fjölgreinadeildar við Lækjarskóla Hafnarfirði

HVERNIG NÁLGUMST VIÐ UNGLINGA SEM FINNST NÁMIÐ Í GRUNNSKÓLANUM „LEIÐINLEGT“?

Fjölgreinadeildin var stofnuð 2005 og þjónar unglingum frá öllum grunnskólum Hafnarfjarðar í 9 og 10 bekk sem ekki hafa náð að fóta sig innan skólans og velja ásamt foreldrum eð aforráðamönnum sínum úrræði Fjölgreinadeildar. Fjallað verður um þær leiðir sem Fjölgreinadeildin hefur farið til að nálgast þennan unglingahóp sem einkennist af lélegri trú á eigin getu, lærðu hjálparleysi, lítilli seiglu, erfiðri hegðun og námsleiða. Áhersla hefur verið lögð á góða líðan nemenda og góð og markviss samskipti við foreldra.

Borghildur Jósúadóttir kennari við Grundaskóla á Akranesi

STÆRÐFRÆÐI – SÓKNARFÆRI TIL SKEMMTUNAR

Borghildur kynnir skapandi verkefni sem hún vann með sama árgangnum í fjögur ár sem endaði með yfirlitssýningu í Safnaskálnanum á Akranesi síðast liðið vor.  Meðal verkefna voru origami pappírsbrot, verkefni unnin út frá ákveðnum köflum í bókunum Átta-tíu. Þau verkefni samanstanda af krosssaumi, málverkum, munsturteikningum, kössum og glærusýningum um mynstur, gullinsnið, fibonacci og brotala. Einnig kynnir Borghildur öðruvísi námsmat í stærðfræði og vinnu með Polidron kubba.

Helgi Grímsson, skólastjóri Sjálandsskóla

STÆRÐIN SKIPTIR EKKI MÁLI!

Í málstofunni er fjallað um hvernig Sjálandsskóli hefur byggt upp fjölbreytt val fyrir 60 nemenda unglingadeild. Nemendur hafa úr 50 námskeiðum að velja á skólaárinu sem telja allt frá kajakróðri og mexíkóskri matargerð til seinni heimstyrjaldarinnar.

Ása Helga Ragnarsdóttir, kennari við Kennaradeild Háskóla Íslands

VINNUSMIÐJA: Í SKÓLANUM, Í SKÓLANUM ER SKEMMTILEGT AÐ VERA

Hvernig vinnum við með sögur nemenda í skólum? Hvaða kennsluaðferðir getur verið gott að  nota? Hvers vegna eru sögur nemenda áhugaverðar að vinna með? Í smiðjunni er leitast við að miðla nokkrum fjölbreyttum, skapandi leiðum í kennslu þar sem nám og skemmtun fer saman. Áhersla verður lögð á glens og gleði í þeim verkefnum sem tekin verða fyrir. Tekin verða dæmi um verkefni er henta öllum skólastigum. Í sameiginlegri sögugerð eru allir nemendur saman, áherslan er á sögur, sögur sem hlustað er á, sögur sem lesnar eru, sögur sem sagðar eru og sögur sem nemendur semja saman.

SKEMMTILEGUR FRAMHALDSSKÓLI

Guðmundur Grétar Karlsson og Haukur Viðar Ægisson kennarar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja

CSI 103 

Sagt verður frá áfanganum CSI 103 sem er þverfaglegur raungreinaáfangi og kenndur er við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Eins og nafnið ber með sér er áherslan á réttarannsóknir þar sem tilbúnir glæpir eru leystir með aðferðum vísindanna.

Skjásýning Guðmundar og Hauks

Ármann Halldórsson, framhaldsskólakennari við Verzlunarskóla Íslands

ÉG Á HEIMA Í KLAPPLANDI 

Spil og leikir eru stórlega vannýtt kennsluaðferð í framhaldsskólum. Fjallað verður um þróunarverefnið Klappland sem er spil sem er ætlað að kynna stjórnmálaferli og þingræði, innblásið af aðferðum spunaspila, borðspila og kennsluaðferðum sem byggja á samræðum. Verkefnið er styrkt af Rannís og verður sagt frá prufuspilun og ýmsum möguleikum sem felast í þessari aðferð. Þetta verður sett í samhengi við fyrirbærið ‘leikvæðingu’ – (e. gamification) – en grundvallaratriðið í henni er að allt, þar með talið skólinn eigi að vera skemmtilegt!

Skjásýning Ármanns

María Guðmundsdóttir skólastjóri og Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir leiðbeinandi

ÞEGAR NEMENDUR FÁ ÁBYRGÐ ER GAMAN Í SKÓLANUM

Í Grunnskólanum á Bakkafirði fá nemendur mikið frelsi til að móta eigin viðfangsefni í samfélagsfræði og náttúrugreinum. Í ellefu kennslustundum í hverri viku fást þeir við fjölbreytt, sjálfstæð viðfangsefni, ýmist einir eða fleiri saman. Nemendur ráða viðfangsefnum sínum og efnistökum að mestu og stundum alveg. Áhugi nemenda á þessum viðfangsefnum hefur verið mikil og farið fram úr björtustu vonum. Hið sama gildir um þátttöku þeirra í mótun verkefnanna. Í þessri kynningu verður sagt frá þessum verkefnum og þeim árangri sem náðst hefur.

Svava Pétursdóttir, nýdoktor Menntavísindasviði HÍ og Þormóður Logi Björnsson kennari Akurskóla. Vendikennsla: viðbót í verkfærakistu kennara?

VENDIKENNSLA: VIÐBÓT Í VERKFÆRAKISTU KENNARA?

Vendikennsla er að ryðja sér til rúms í íslenskum skólum, í erindinu verður rætt um tilraunir við að beita aðferðinni og möguleikum hennar til að hafa áhrif á kennsluhætti. Þormóður Logi og Ragnar Þór Pétursson Norðlingaskóla hafa verið að útbúa myndbönd til vendikennslu í efstu bekkjum grunnskóla. Rætt verður um hvað þurfi að hafa í huga við gerð slíkra mynda, bæði tæknilega hlið mála og inntak myndbandanna. Könnun var gerð á viðhorfum nemenda sem lærðu einn kafla í náttúrufræði með vendikennslu, kynntar verða niðurstöður þeirrar könnunar, hvernig nemendur notuðu myndböndin og hvað þeim fannst um aðferðina.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, kennari við Borgarhólsskóla á Húsavik

ÁHUGASVIÐS- OG NÝSKÖPUNARVERKEFNI Á UNGLINGASTIGi

Hver eru þín áhugamál? Hver ætli séu áhugamál kennaranna minna? Hvernig get ég búið til eitthvað nýtt? Hvernig hannar maður stól? Svörin við þessum spurningum fást í áhugasviðsverkefninu í Borgarhólsskóla. Þar er byrja kennarar á að  kynna sín áhugamál fyrir nemendum sínum (Kubb-spilið, draugar, leiklist, origami, zumba o.fl.). Nýsköpunarverkefni tekur svo við en þar þurfa nemendur að búa til eitthvað nýtt úr „gömlum“ hlut eða hanna einhvern hlut frá grunni, hugmynd verður að hlut. Áhugasviðsverkefnið er síðasti hlutinn og þar vinna að sínum eigin áhugamálum, segja frá þeim og skila á þann hátt sem þá langar til.
Markmiðið með verkefninu er að gera námið áhugaverðara á unglingastigi og fá nemendur til að taka ábyrgð á eigin námi. Unnið er eftir markmiðum aðalnámskrár þar sem kemur fram að:

  • Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska.
  • Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.

Það er m.a. gert með því að leggja áherslu á frjótt, skapandi starf, verklega færni, nýsköpun og frumkvöðlanám þar sem hvatt er til frumkvæðis og sjálfstæðis í vinnubrögðum og hagnýtingu í skólastarfi og daglegu lífi. (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 30).

Bryndís Valgarðsdóttir skólastjóri, Erla Margrét Hilmisdóttir kennari og Reynir Hjartarson kennari

ÞAR SEM VIÐ TÖKUM FLUGIÐ

Hlíðarskóli að hefja sitt þriðja skólaár með nýjum kennsluháttum. Á hverjum föstudagsmorgni fá nemendur valblað þar sem boðið er uppá 4-6 valmöguleika í námi tvisvar á dag. Þeir skila til umsjónarkennara hvað þeir vilja læra í valgreinum í næstu viku og á mánudagsmorgni bíður þeirra og kennaranna ný stundaskrá. Þegar er búið að setja upp 180 valmöguleika. Þannig ráða nemendur á hverjum tíma hvaða viðfangsefni þeir kjósa að fást við og bekkir blandast í námi tvisvar á dag, en kennarar hafa jafnframt möguleika á að sinna einstökum nemendum eða hópum eftir því sem á þarf að halda. Þarna eru því að vinna saman nemendur úr öllum árgöngum. Markmiðið var ekki síst að auka ábyrgð nemenda á eigin námi og gera þeim kleift að fara hægar eða hraðar yfir námsefnið eftir námsgetu og þroska hvers og eins og finna betur hvar styrkur hvers nema liggur til að auka starfsgleði, þrautsegju, áræði og sjálfsmat. Sérstakt keppikefli var að bæta líðan nemenda og að skólinn yrði sem líkastur góðum vinnustað með hlýleika góðs heimilis. Einnig erum við með nýtt matskerfi í þróun þar sem nemendur meta hvern einstakan valtíma að honum loknum og starfsfólk svarar einnig stöðluðum spurningum um lífið í skólanum og einnig meta foreldrar líðan og framfarir barna sinna.

Sveinlaug Sigurðardóttir deildarstjóri, leikskólanum Ökrum

AÐ FARA ÚT FYRIR ÞÆGINDARAMMANN 

Sveinlaug segir frá skemmtilegri tilbreytingu í starfi leikskólans Akra sem felur í sér flæði milli allra deilda og starfsfólks leikskólans. Sagt verður frá fyrirkomulaginu ásamt þeim ávinningi sem flæðið felur í sér fyrir börn, kennara og annað starfsfólk.

Sara Margrét Ólafsdóttir leikskólakennari og doktorsnemi

“ÞAÐ SKAPAR VELLÍÐAN AÐ ÞURFA EKKI AÐ KEPPA VIÐ TÍMANN.” ÁHRIF SKIPULAGS Á VELLÍÐAN BARNA Í LEIKSKÓLA

Sara fjallar um  meistaraprófsverefni sitt, sem byggðist á eigindlegri tilviksrannsókns, sem fór fram í tveimur leikskólum. Rannsóknin beindist að því hvernig mismunandi skipulag í leikskólunum hafði áhrif á vellíðan barnanna.

Lilja M. Jónsdóttir lektor

SMIÐJA: NOTUM SKAPANDI KENNSLUAÐFERÐIR Í BÓKLEGU NÁMI!

Í þessari smiðju læra þátttakendur að nota ýmsar aðferðir listgreina í verkefnagerð í t.d. íslensku og samfélagsgreinum. Má þar nefna að „dippa“ myndir, þar sem atburðir í sögum eru túlkaðir myndrænt og að hanna og búa til frumleg veggspjöld. Reynslan hefur sýnt að nemendur vanda mun betur vinnu sína þegar þeir kunna aðferðir sem gerir þeim kleift að sýna skapandi hugsun sína í verki. Lilja hefur áralanga reynslu af því að nota skapandi kennsluaðferðir með nemendum sínum í 4. – 10. bekk í alls kyns verkefnum, auk þess sem hún kennir nemendum á kjörsviði Samfélagsgreina í Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands að nota skapandi kennsluaðferðir í bóklegu námi á svo kölluðum verkstæðum.

Einar Daði Reynisson og Guðrún Anna Kjartansdóttir grunnskólakennarar í Álftanesskóla:

LOKAVEREKFNI 10. BEKKJAR – STOFNA EIGIN FYRIRTÆKI

Undanfarin ár hafa nemendur 10. bekkjar unnið að ,,Lokaverkefni” á síðustu vikum skólaársins. Nemendur vinna 3 – 4 saman í hóp að verkefni þar sem reynir á sjálfstæð vinnubrögð, skipulagningu og samstarf. Hóparnir velja eitt af eftirfarandi verkefnum:

• hanna menningar- og/eða afþreyingarstað,
• stofna fyrirtæki/verslun,
• stofna fjölmiðlafyrirtæki,
• skipuleggja hátíð sem getur verið íþrótta-, lista-, tónlista-, og/eða útihátíð,
• hanna draumanámið sitt,
• stofna æskulýðs- og/eða íþróttamiðstöð,
• skipuleggja brúðkaup.

Í verkefninu flétta nemendur saman allar bóklegar námsgreinar. Vinna við verkefnin fer fram í skólanum, utan hans og geta nemendur þurft að afla upplýsinga víða. Í lok vinnunnar sýna nemendur afraksturinn á sýningu fyrir foreldra og aðra nemendur skólans ásamt því að verja verkefnið fyrir kennurum.

Kl. 13.00-14.00 Aðalfundur Samtaka áhugafólks um skólaþróun

Aðalfundargögn

Ráðstefnugjald kr. 3000.- fyrir félagsmenn og kr. 4000.- fyrir utanfélagsmenn.