Embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skóla-þróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhuga-fólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar taka höndum saman um að veita árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin heita Íslensku menntaverðlaunin.
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs. Stefnt er að því að veita verðlaunin ár hvert og skulu þau bera ártal þess. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum auk sérstakrar hvatningar til aðila sem stuðlað hafa að framúrskarandi menntaumbótum.
- Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hefur ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.
Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Framkvæmd
Skipan viðurkenningarráðs
Þeir aðilar sem standa að verðlaununum tilnefna hver um sig einn fulltrúa í viðurkenningarráð til þriggja ára. Fulltrúi Embættis forseta Íslands skal vera formaður viðurkenningarráðs. Hver aðili ber kostnað af fulltrúa sínum.
Starfsreglur
Ráðið hefur heimild til að setja sér nánari starfsreglur.
Gildistími og kostun
Samkomulag þetta er til fimm ára. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa veitt stofnstyrki til verkefnisins. Við það er miðað að ráðuneytin styrki verkefnið áfram; mennta- og menningarmálaráðuneyti veiti til þess allt að 1 m. kr. árlega og samgöngu- og sveitar-stjórnarráðuneytið allt að kr. 500 þ. kr. árlega. Í kjölfarið verður leitað styrktaraðila til framtíðar.
Umsýsla
Samtök áhugafólks um skólaþróun sjá um umsýslu verkefnisins.
Tilnefningar
Fyrir 15. mars ár hvert auglýsir viðurkenningarráð eftir tilnefningum til verðlaunanna. Tilnefningar skulu berast fyrir 1. júní ár hvert. Ráðinu er einnig heimilt að hafa frumkvæði að því að afla sér upplýsinga um starf eða verkefni sem til greina koma.
Tilnefningum skal fylgja skriflegur rökstuðningur.
Tilnefningum um þróunarverkefni í C-flokki skulu fylgja gögn sem gera valnefnd kleift að leggja faglegt mat á verkefnið (s.s. skýrslur, vefsíður, kvikmyndir, greinar).
Val
Viðurkenningarráð velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október ár hvert. Viðurkenningarráði er heimilt að skipta með sér verkum og tilnefna valnefndir við mat á tilnefningum. Einnig er heimilt að leita utanaðkomandi umsagna eða ráðgjafar, enda sé um það trúnaður.
Minnst þrír aðilar skulu koma að mati á viðurkenningum í hverjum flokki og skal þess gætt að kynjahlutföll séu sem jöfnust. Einnig skal gætt hlutleysis, meðal annars með því að tryggja að hagsmunir þeirra sem að matinu koma tengist ekki tilnefndum aðilum.
Afhending verðlaunanna
Stefnt er að því að veita verðlaunin við hátíðlega athöfn í nóvember ár hvert í skóla eða öðrum viðeigandi stað.
Forseti Íslands veitir verðlaun í A flokki.
Mennta- og menningarmálaráðherra veitir verðlaun í B flokki.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitir verðlaun í C flokki.
Hvatningu veita aðrir fulltrúar viðurkenningaráðs til skiptis.
Forseti Íslands og ráðherrar undirrita viðurkenningarskjöl.
Kynning
Samstarfsaðilar skuldbinda sig til þess að kynna verðlaunin með fréttaflutningi, á samfélagsmiðlum, fundum, ráðstefnum eða með öðrum hætti. Stefnt verður að því að koma upp sérstakri vefsíðu fyrir verðlaunin. Leitað verður til fjölmiðla um að kynna viðburðinn og þær menntaumbætur og skólaþróunarverkefni sem verðlaun hljóta hverju sinni.
Undirritun
Samkomulagið verður undirritað á Bessastöðum 5. nóvember 2019