Samstarfsverkefni Íslenskuþorpsins og grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi  

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023

Framúrskarandi þróunarverkefni

Samstarfsverkefni Íslenskuþorpsins og grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi 

Undanfarinn áratug hefur nemendum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn fjölgað mikið, sem kallar á breytta nálgun og þróun náms og kennslu. Grunnskólarnir í Grafarvogi og á Kjalarnesi leituðu til Íslenskuþorpsins, (sjá hér) um samstarf við að þróa nýjar leiðir í íslenskunámi með áherslu á að nemendur læri íslensku í raunverulegum og fjölbreyttum aðstæðum. Markmið þróunarverkefnisins eru, auk eflingar íslensku og tjáningarfærni, að styrkja félagsfærni, sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda.  

Hugmyndafræði Íslenskuþorpsins byggir á rannsóknum sem leitt hafa í ljós að miklu skiptir að sá sem lærir nýtt tungumál tali við einhvern sem kann meira í nýja málinu og að tungumálanámið fari fram í samhengi við aðstæður. Kennsluaðferð Íslenskuþorpsins myndar brú úr kennslustofunni yfir í samfélagsþátttöku með markvissu og sérsniðnu æfingaumhverfi og verkefnum. Stundum er sagt að heilt þorp þurfi til að ala upp barn og Íslenskuþorpið samanstendur af þátttöku sem flestra í skólasamfélaginu en einnig utan skólans. Velviljaðir einstaklingar eiga samskipti við nemendur og gera þannig íslenskunámið merkingarbært, hagnýtt og skemmtilegt. Verkefnin miða að því að víkka tengslanet nemenda, efla tjáningarfærni, styðja við og skapa tækifæri til fjölbreyttra samskipta og ávallt er höfðað til áhugasviðs nemenda.   

Starfsfólk grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi telur verkefnið Viltu tala íslensku við mig, framúrskarandi þróunarverkefni, sem hafi sýnt skýrar framfarir hjá nemendum með íslensku sem annað mál í íslensku, aukið sjálfstraust þeirra og ánægju. Framfarir hjá nemendum eru mestar í töluðu máli en ná einnig til þátta eins og skilnings, lesturs og ritunar. Nemendur sem tóku þátt áttu auðveldara með að tala, juku sjálfstraust sitt og og gripu sjaldnar til enskunnar.  

  • Stutt stikla um kennsluaðferð Íslenskuþorpsins fyrir kennara og nemendur í grunnskólum.  
  • Myndbandið Viltu tala íslensku við mig?gerðu Íslenskuþorpið og samstarfsskólarnir til að vekja athygli á þróunarverkefninu og mikilvægi þess að tala íslensku.  
  • Umfjöllun og kynning á þróunarverkefninu eftir fyrsta starfsárið á Stefnumóti SFS og MVS, í maí 2021. 
  • Upplýsingar um námskeiðið Íslenskuþorp í leikskólum um land allt fyrir starfsfólk leikskóla með fjölbreyttan tungumálagrunn.                         

 

 

Scroll to Top