Samvinna og sjálfræði – Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:  Þróunarverkefni í Verzlunarskóla Íslands 

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023

Framúrskarandi þróunarverkefni

Samvinna og sjálfræði – Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna 
Þróunarverkefni í Verzlunarskóla Íslands 

Haustið 2022 var skólaþróunarverkefni hleypt af stokkunum í Verzlunarskóla Íslands undir yfirskriftinni Samvinna og sjálfræði – Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna. Um var að ræða samþættingarverkefni sem tengdist dönsku, ensku, hagfræði, íslensku og upplýsingatækni. Nemendur unnu í tvær vikur í teymum og hvert teymi valdi eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og áttu nemendur að koma með tillögur að umbótum sem tengdust viðkomandi markmiði. Útkoman var fjölbreytt og má þar m.a. nefna fræðslumyndbönd, skólaheimsóknir, viðtöl við ráðamenn, sölusíður, tónlistarmyndbönd, tímarit, stuttmyndir, fréttaþætti, fjáröflun, hlaðvörp og voru tillögur að lausnum á samfélagsvandamálum sendar ráðamönnum.  

Í kjölfar verkefnisins gerðist Verzlunarskólinn UNESCO skóli. Verkefnið er endurtekið á þessu ári með hliðsjón af fenginni reynslu.  

Markmið verkefnisins er að gefa nemendum tækifæri til að þjálfast í samvinnu, finna eigin leiðir í námi sínu og bera ábyrgð á því samhliða því að fá tækifæri til efla samfélagslega ábyrgð. Í leiðinni gefst nemendum einnig tækifæri til að sýna frumkvæði og vera skapandi og hafa þannig eitthvað um framgang eigin náms að segja. Áður en verkefnið var lagt fyrir vann stýrihópur að undirbúningi þess með fulltrúa þeirra námsgreina sem að verkefninu komu.  

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra heimsótti skólann til að kynna sér verkefnið og sagði m.a. þetta eftir heimsóknina:  

,,Það var frábært að sjá áhugann og metnaðinn í verkefnunum og ljóst að þar fer öflugt ungt fólk með sterkar raddir – Raddir sem stjórnvöldum ber að hlusta á. Ég vil þakka kærlega fyrir heimboðið í Verzló og hlakka til þegar verkefnin eru tilbúin.‘‘ 

Um verkefnið má einnig fræðast hér: