Sáttmáli um samstarf

Samskipti heimila og skóla

Ráðstefna Heimilis og skóla og Samtaka áhugafólks um skólaþróun í Hlégarði í Mosfellsbæ föstudaginn 3. nóvember, kl. 14.00‒18.00.

Ráðstefnan var með þjóðfundarsniði og byggðist á virkri þátttöku fundargesta þar sem leitast var við að svara spurningum um æskilega þróun samstarfs heimila og skóla. Hugmyndin var að nýta niðurstöðurnar til að leggja drög til sáttmála um samstarf heimila og skóla. Um 60 þátttakendur sóttu ráðstefnuna.

Umræðustjóri: Sigurborg Kr. Hannesdóttir ráðgjafi hjá ILDI.

Stutt erindi fluttu Baldur Pálsson fræðslustjóri á Seltjarnarnesi, Kristín Jónsdóttir kennslukona og skólastýra Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum, Kristín Lilliendahl ráðgjafi hjá Erindi og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Nanna Christiansen verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg og höfundur bókarinnar Skóli og skólaforeldrar. Sjá nánar um fyrirlesara hér

 

Drög að sáttmála um samstarf heimila og skóla

Á ráðstefnu Heimilis og skóla og Samtaka áhugafólks um skólaþróun var rætt um möguleika á að móta sáttmála um samstarf heimila og skóla.

Víðtækt samkomulag er um að gott samstarf heimila og skóla sé einn af lyklum að árangursríku námi og skólastarfi. Áríðandi er að aðilar komi að samstarfinu á jafréttisgrunni og að það byggist á gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi og trausti.

Niðurstaðan var að eftirfarandi þættir gætu verið uppistaða í sáttmála:

  • Að mótuð verði í hverjum skóla viðmið og verklag um samskipti, boðleiðir og fyrirkomulag og hvernig bregðast eigi við örðugleikum sem upp kunna að koma.
  • Að á hverju hausti sé gefinn kostur á samtali (haustfundi, haustsamtali) milli foreldra / forráðamanna og umsjónarkennara þar sem lögð séu drög að sáttmála um samstarfið framundan; verklag, fyrirkomulag, væntingar, hlutverk, viðburði, hugmyndir um samstarfsverkefni sem efla skólastarfið og heimsóknir foreldra. Jafnframt sé lagður grunnur að kynnum foreldra.
  • Að eiga hreinskiptin og milliliðalaus samtöl um þau atriði sem betur mega fara, í stað þess að ræða þau á öðrum vettvangi (í fjölpósti, tölvusamskipum, á kaffistofunni, í samfélagsmiðlum eða við eldhúsborðið).
  • Að markvisst sé leitað leiða til að efla hlutdeild foreldra í skólastarfinu og að nýta mannauðinn í grenndarsamfélaginu í þágu þess.
  • Að hugað sé að því að setja oftar á dagskrá viðfangsefni þar sem foreldrar, nemendur og starfsfólk skóla leggja saman af mörkum.
  • Að allir aðilar leggi sitt af mörkum til að efla jákvæða og uppbyggilega umræðu um skólastarf.
  • Að aðkoma nemenda að samstarfinu sé tryggð, að rödd þeirra heyrist og þeir séu oftar þátttakendur í þeim úrlausnum sem snerta nám og samskipti.

Þá var það niðurstaða ráðstefnunnar að ráðast í átak til að safna dæmum um gott samstarf heimila og skóla og birta á aðgengilegum vettvangi, t.d. á heimasíðu Heimilis og skóla eða í Skólaþráðum, tímariti Samtaka áhugafólks um skólaþróun.

 


 


Aðalfundur Samtaka áhugafólks um skólaþróun var haldin í Hlégarði þennan sama dag og hófst fundurinn kl. 12.30. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf (sjá lög félagsins, hér).