Málþing um starf og verkefni skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins
í Veröld – húsi Vigdísar, laugardaginn 12. maí 2018, kl. 13.00-17.00
Málþinginu var ætlað að varpa ljósi á áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins 1966-1996 á skólastarf og skólaþróun í landinu. Skólarannsóknadeildin var sett á laggirnar 1966 (hét fyrst Skólarannsóknir, þá Skólarannsóknadeild og síðar Skólaþróunardeild). Hún fékk fljótlega það verkefni að annast heildarendurskoðun náms og kennslu í grunnskólum og var þetta verkefni eitt umfangsmesta skólaþróunarverkefni sem í hefur verið ráðist hér á landi. Fjöldi sérfræðinga kom að starfinu, námstjórar, námsefnishöfundar og ráðgjafar. Auk námsefnisgerðar unnu starfsmenn að námskrárgerð, viðamikilli endurmenntun í samstarfi við Kennaraháskólann og útgáfu handbóka og leiðbeininga, auk þess að heimsækja skóla til ráðgjafar og eftirlits. Talsverðar deilur urðu þegar á leið um sumt í þessu starfi, t.d. um námsefni í samfélagsgreinum.
Margir þeirra sem að þessu starfi komu eru enn á lífi, en flestir komnir á eftirlaunaaldur. Eitt af markmiðum ráðstefnunnar var að fá fram viðhorf sem flestra þeirra til þessa starfs og var leitað til sex fyrrverandi starfsmenn, sem allir gegndu stöðu námstjóra, um að horfa til baka í stuttum erindum: Aðalheiður Auðunsdóttir (heimilisfræði), Anna Kristjánsdóttir (stærðfræði), Sigurður Pálsson (kristin fræði og trúnarbragðafræði), Sigþór Magnússon (samfélagsfræði), Þorvaldur Örn Árnason (náttúrufræði) og Þórleif Drífa Jónsdóttir (mynd- og handmennt).
Þrír fræðimenn, sem þekkja vel þetta tímabil í íslenskri skólasögu, tóku að sér að varpa ljósi á starf, stefnur, strauma og áhrif deildarinnar, auk þess sem efnt var til pallborðsumræðna með þátttöku fræðimanna og fyrrverandi starfsmanna deildanna. Erindin fluttu Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur og menntunarfræðingarnir Gerður G. Óskarsdóttir og Jón Torfi Jónasson. Pallborðsumræðunum stýrði Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor sem einnig hefur rannsakað starf skólarannsóknadeildar. Sjá nánar um aðalerindin og umræðurnar hér.
Ráðstefnustjóri var Ólafur Helgi Jóhannsson.
Að málþinginu stóð hópur fyrrverandi starfsmanna í samstarfi við Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkti ráðstefnuna!