Skrekkur, hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Skrekkur, hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur

Verkefni sem byggir á virkri þátttöku nemenda, sköpun, samstarfi og sjálfstyrkingu

Skrekkur er árleg hæfileikakeppni fyrir grunnskólanemendur á unglingastigi í Reykjavík. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda, reynslunám og skapandi starf. Með þátttöku í Skrekk er unglingum boðið upp á skóla- og frístundastarf sem hefur ótvírætt uppeldis- og menntunargildi.

Skrekkur byggist á því að unglingarnir þróa sviðsverk frá hugmynd til sviðsetningar. Markmiðið er að efla sköpunargáfu, að unglingarnir læri að hugsa út fyrir rammann, læri verklag, þjálfist í markvissu hópstarfi, styrki sjálfsmynd sína, efli félagsstarf og samstarf á milli skóla og félagsmiðstöðva. Skrekkur er skipulagður með hliðsjón af Menntastefnu Reykjavíkur, Látum draumana rætast, í samstarfi skóla, félagsmiðstöðva og skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, ásamt RÚV og Borgarleikhúsinu.

Með þátttöku í Skrekk fá ólíkir hæfileikar unglinganna að njóta sín. Sviðsetningin býður m.a. upp á dans, leik, söng, tónlist, leikstjórn, ljós, hljóð, sviðsmynd, leikmuni, förðun, hár, búninga, ljósmyndun. Unglingarnir hafa nýtt þetta tækifæri til að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri. Atriðin endurspegla jafnan viðfangsefni sem eru í deiglunni í lífi unglinga og í heiminum hverju sinni. 

Undirbúningsferlið felur þannig í sér mikla áskorun varðandi samskipti innan hópanna, að takast á við mismunandi sýn. Þau þurfa að vera skapandi og lausnamiðuð og finna leiðir til að koma fullunnu verki á svið. Í þessu felst mikið lærdómsferli.

Verkefnið hefur þróast í áranna rás til að mæta viðhorfum unglinganna og þörfum samtíðar. Verkefnið hefur vaxið með markvissara samstarfi við Borgarleikhúsið og RÚV.