Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2020
Framúrskarandi þróunarverkefni
Smiðjan er þróunarverkefni á unglingastigi í Langholtsskóla í Reykjavík sem hefur það markmið að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.
Smiðjan í skpandi skólastarfi hófst haustið 2017 að frumkvæði kennara skólans á unglingastigi og var liður í innleiðingu skólans á meginhugmyndum aðalnámskrár fyrir grunnskóla. Í öndvegi var sett hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt og í samvinnu við aðra, nýting margvíslegra miðla og tækni við þekkingarleit, úrvinnsla og miðlun á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt, auk þess sem nemendum voru gefin tækifæri til að bera aukna ábyrgð á námi sínu. Fjölbreytt nýting upplýsingatækni er rauður þráður í verkefninu og nemendur hafa spjaldtölvur til umráða. Verkefnið byggir á samþættingu námsgreina og lotukennslu og ná verkefnin til samfélags- og náttúrufræðigreina, íslensku, upplýsingatækni og lífsleikni. Mörg verkefnanna tengjast öðrum greinum, t.d. umhverfismennt og siðfræði. Nemendur fást við heildstæð verkefni sem þeir kryfja og vinnubrögðin taka mið af hönnunarhugsun, vísindalegri nálgun, lausnaleitarnámi og nýsköpun.
Í Smiðju í skapandi skólastarfi er lögð áhersla á samstarf kennara og teymiskennslu og kennarateymið hefur kynnt og miðlað verkefninu víða í íslensku skólasamfélagi, bæði með því að bjóða skólafólki að heimsækja Langholtsskóla en einnig með kynningu á námskeiðum, menntabúðum og fræðslufundum. Vefsíðan www.smidjan.com er opin öllum með verkefnabanka og handbók.
Verkefnið hefur verið metið með formlegum hætti og niðurstöður sýna meðal annars meiri einstaklingsmiðun og fjölbreytni í námi, jákvæð viðhorf nemenda, aukna starfsánægju og eflingu starfsþróunar.
Verkefnið hefur fengið styrki frá Skóla- og frístundaráði og Rannís.
Um verkefnið hefur verið fjallað í grein í Skólaþráðum.
