Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi leikskólabarna

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi leikskólabarna
Ásthildur Bj. Snorradóttir og Menntamálastofnun

Þróunarverkefni sem beinist að því að efla málþroska leikskólabarna með því að auka þekkingu og skilning starfsfólks á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og færni í að skipuleggja fjölbreyttar leiðir til málörvunar

Verkefnið, sem hefur náð til rúmlega  fimmtíu leikskóla, hefur það að markmiði að leikskólabörn nái hámarksárangri hvað varðar mál, tal og boðskipti og undirbúning hvað varðar lestur og læsi. Unnið er að því að efla þekkingu, skilning og færni starfsfólks skólanna á málörvun og málþroska í samræmi við hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun og heildstæða skólastefnu

Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur, hóf að móta þetta starf 2014 með útgáfu bókarinnar Snemmtæk íhlutun fyrir tveggja til þriggja ára gömul börn  í samvinnu við leikskóla á Akranesi. Í framhaldi af því hóf hún ráðgjöf við innleiðingu verkefnisins í leikskólum víða um land og stýrði innleiðingunni í samvinnu við tengiliði í hverjum skóla. Árið 2019 kom Mennntamálastofnun að verkefninu, en Ásthildur er áfram faglegur  ráðgjafi. 

Ásthildur hefur skrifað fjölda bóka og fræðigreina, haldið erindi á ráðstefnum og gengist fyrir ráðstefnum um málörvun og læsi. Hún er annar höfunda að málörvunarforritinu Orðagulli, sem notað er í flestum leik- og grunnskólum landsins og er nú verið að þýða yfir á nokkur tungumál.

Þróunarverkefnin miða að því að starfsfólk leikskólanna útbúi handbók samkvæmt aðgerðaáætlun um markmið og leiðir við málörvun. Handbækurnar eru gjarnan eru vistaðar á heimasíðum skólanna (sjá dæmi um handbækur hér). Mikil áhersla er lögð á að allt starfsfólk taki virkan þátt í þróunarvinnunni og að unnið sé í anda lærdómssamfélagsins. Áhersla í þróunarverkefninu er alltaf að börn læra best í gegnum leik. 

Við innleiðinguna eru valdir tveir tengiliðir í hverjum leikskóla til að hafa umsjón með verkefninu. Sérstök áhersla er á að upplýsa foreldra og forráðamenn um gildi þróunarverkefnisins og mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Einnig er fjallað ítarlega um málþróun ungra barna og hugmyndir til þess að efla góðan málþroska og læsi. Sérstaklega er fjallað um undanfara máls, helstu málþætti,  og málörvun. Sérstök umfjöllun er um börn sem eru að læra íslensku sem annað tungumál. Í tengslum við verkefnið hafa verið þróaðir verkferlar, skráningarlistar og gerðar eru einstaklingsáætlanir og þjálfunaráætlanir fyrir börn eftir þörfum.    

Úr umsögn með tilnefningu:

Verkefnið hefur haft mikla þýðingu fyrir leikskólastarfið. Það hefur skapað þekkingu hjá starfsfólki og kennurum á mikilvægi málörvunar í leikskólastarfi. Starfsfólk og kennarar hafa endurhugsað og breytt viðhorfi og vinnulagi … Starfsfólk leikskólanna hefur valdeflst með aukinni þekkingu á málþroska og hvað telst innan meðaltalsmarka þegar horft er til frávika.

Samvinna og samstarf innan leikskólanna sem og milli þeirra hefur aukist og er gaman að sjá hvernig deildarstjórar, sérkennarar og leikskólastjórar ræða saman um þætti sem eru sameiginlegir skólunum en ekki síður eru kennarar leikskólanna að spegla eigin aðstæður og veita jafningjafræðslu eða ráðgjöf sín á milli sem er alger draumastaða þegar kemur að eflingu lærdómssamfélaga …

Verkefnið er ekki síður starfendarannsókn þar sem starfsfólk leikskólanna voru þátttakendur sem rýndu í eigin starfsaðferðir, vinnuferli, skipulag og bjargir .. Handbækur leikskólanna eru strax orðnar einskonar leiðarvísir fyrir starfsfólk þegar kemur að málörvunarstarfi með leikskólabörnum. Nýtt starfsfólk les handbók síns leikskóla og er þannig upplýst um hvernig leikskólinn nálgast málörvunarstarf og inngrip þegar við á.