Tæknimenntaskóli Tækniskólans

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Tæknimenntaskóli Tækniskólans

fyrir að þróa nám og kennslu með velferð og þarfir nemenda að leiðarljósi, í takt við síbreytilegar þarfir samfélagsins

Tæknimenntaskólinn, sem er undirskóli í Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins, er tilnefndur fyrir framúrskarandi kennsluhætti sem svara þörfum samfélagsins með ólíkum námsleiðum fyrir fjölbreyttan nemendahóp. 

Í skólanum hefur verið þróuð Íslenskubraut fyrir útlendinga sem undanfarna áratugi hefur á frjóan hátt og metnaði sinnt sístækkandi hópi ungmenna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Hin síðari ár hafa ungmenni með flóttabakgrunn verið hluti nemendahópsins og námið einkennst af virðingu fyrir reynsluheimi og styrkleikum hvers og eins. 

Þá býður Tæknimenntaskólinn K2: Tækni- og vísindaleið sem er krefjandi námsbraut til stúdentsprófs þar sem farnar eru áhugaverðar og nýjar leiðir við útfærslu námsins. Áhersla er lögð á vísindagreinar, sjálfstæð vinnubrögð og frumlega og skapandi hugsun þar sem nemendur takast á við verkefnamiðað nám og sjálfstæða vinnu með áherslu á lausnaleit, frumkvæði og fjölbreytt verkefnaskil. Samstarf er milli Háskólans í Reykjavík og K2: Tækni og vísindaleiðar sem er til eftirbreytni. 

Tæknimenntaskólinn býður einnig upp á starfsbrautir og starfsnám þar sem komið er til móts við ólíkar þarfir margbreytilegs nemendahóps. Hugsjón, ástríða og metnaður einkennir kennara og aðra sérfræðinga skólans, sem hafa leitað leiða til að þróa nám og kennslu með velferð og þarfir nemenda að leiðarljósi, í takt við síbreytilegar þarfir samfélagsins. 

Ú umsögn um Íslenskubrautina:

Á íslenskubrautinni í Tækniskólanum starfa kennarar sem er sérlega umhugað um nemendur sína, námstækifæri þeirra og möguleika til þátttöku í lífi, leik og starfi. Þeir leggja áherslu á fjölbreyttar, skapandi og þátttökumiðaðar kennsluaðferðir og líta á íslenskunámið sem mikilvægan lið í því að tengja nemendur með markvissum og merkingarbærum hætti við samfélag og samferðafólk sitt. Á brautinni er unnið með styrkleika nemenda sem felast í fjölbreyttum bakgrunni þeirra, þekkingu og reynslu á þeim margbreytilegu viðfangsefnum sem unnið er með í íslenskunáminu. Íslenskunámið á brautinni býður upp á mikilvæg tækifæri til tungumálakennslu en stuðlar einnig að því að nemendur tilheyri skólasamfélagi, æfist í félagslegum samskiptum og öðlist frekari tækifæri til fjölbreyttrar þátttöku á ólíkum sviðum lífsins.

Úr umsögn um K2:

Nemendur á brautinni hafa ríkulegt hugmyndaflug og skila af sér flottum verkefnum, vangaveltum og lausnum á viðfangsefnum hverju sinni. Það  einkennir nemendur að vera óhrædd við að leyfa sköpuninni að taka völdin og taka sínar eigin pælingar lengra. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að uppsetning námsbrautarinnar ýtir undir skapandi og lausnamiðaðan hugsunarhátt nemenda. K2 Tækni- og vísindaleiðin sannar að það er hægt að nálgast framhaldsskólanám á fjölbreyttan og nemendamiðaðan hátt.

Úr umsögn um Starfsbrautina:

Sonur minn fór úr einhverfudeild-sérdeild Fellaskóla í Tækniskólann.  Ég var búin að kvíða þessum flutningi þar sem ég hélt að þetta yrði mikið stökk fyrir hann  en sá kvíði reyndist óþarfur á móti honum var tekið af þvílíkri fagmennsku að annað eins er vandfundið. Honum fór mikið fram og þroskaðist mikið á þessum tíma sem hann var í TÍ og fékk að gera það sem hann hafði áhuga og gaman af og frábært að sjá hvernig hægt var að samtvinna nám og skemmtun hjá honum. Starfsfólk fór oft langt út fyrir þægindarammann og sitt starf með að aðstoða við að gera afmæli og útskrift eftirminnilega og aðstoða með framhald eftir að skóla lauk. 

Íslensku menntaverðlaunin 2022

Scroll to Top