Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2020
Framúrskarandi kennari
Þórunn Elídóttir, kennari við Hamraskóla í Reykjavík, er tilnefnd fyrir framúrskarandi árangur í byrjendakennslu, vandaða lestrarkennslu barna í yngstu bekkjum grunnskóla og þróun og miðlun námsefnis í læsi.
Þórunn Elídóttir er kennari við Hamraskóla í Reykjavík, en þar hefur hún kennt í 24 ár. Hún hefur einkum kennt á yngsta stigi og lagt sig sérstaklega eftir lestrarkennslu þar sem hún hefur náð miklum árangri. Þórunn hefur verið ötul við að miðla öðrum kennurum af reynslu sinni og hefur verið afkastamikil við námsefnsgerð og samið fjölda lestrarbóka og verkefna sem þeim tengjast. Þórunn er ein af stofnendum 123skoli.is en þar er að finna margt af því efni sem hún hefur samið.
Í tillögu að tilnefningu hennar segir meðal annars:
Þórunn hefur tekið á móti mjög mörgum 1. bekkjum og leitt börnin inn í grunnskólann af mikilli umhyggju og faglegum styrkleika … Hún hefur náð miklum árangri í lestrarkennslu barna í fyrstu bekkjum og samið mikið af lestrarbókum og verkefnum fyrir byrjendur í lestri. Hún á mjög góða samvinnu við starfsfólk, foreldra og stoðþjónustuna. Ég veit til þess að foreldrar barna sem byrja í 6 ára bekk hvert ár vonast til að hún verði kennarinn … Hún hefur verið afkastamikil í námsefnisgerð og hefur nýtt sér tæknina í kennslu af miklum áhuga og nemendum til gagns … Hún er ein af þessu kennurum sem er farsæl í starfi, vinnur af áhuga með velferð nemenda ávallt í fyrirrúmi.
