Tónskóli Sigursveins

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2020

Framúrskarandi skólastarf

Tónskóli Sigursveins er tilnefndur fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og framlag til barnamenningar með árvissu samstarfi við rúmlega 30 reykvíska leikskóla.

Tónskóli Sigursveins hefur það að markmiði að efla almenna tónlistarþekkingu. Skólinn byggir starf sitt meðal annars á þeirri hugsun að með skipulegu námi og markvissum kennsluaðferðum geti allir tileinkað sér vissa færni á sviði tónlistar. Þess vegna er leitast við að koma til móts við þarfir þeirra sem hafa áhuga á að auka þekkingu sína og færni í tónlist jafnhliða öðru námi og starfi en einnig að skapa þeim, sem skara fram úr, verkefni við hæfi. Til að sem bestur árangur náist er lögð áhersla á að foreldrar séu virkir þátttakendur í námi yngstu nemendanna. Boðið er upp á fjölbreytt nám í hljóðfæraleik, rytmískt nám, Suzukideild og forskóla. Mjög mikil áhersla er lögð á samspil og samkennslu og á hverju ári starfar fjöldi samspilshópa og hljómsveita við skólann, að ógleymdum tónleikum og tónfundum. Á hverju ári eru haldnir um 170 tónleikar á vegum skólans og eru þeir ákaflega fjölbreyttir. Skólinn er einnig mjög öflugur í innlendu og erlendu samstarfi. Undanfarin fjögur ár hefur síðan þróast samstarf við Hólabrekkuskóla, Fellaskóla og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Nemendur í 1., 2. og 7. bekk grunnskólanna hafa fengið tónlistarkennslu í Tónskóla Sigursveins og í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hafa verið kenndir tónlistaráfangar í formi vinnustofu í rytmískri tónlist og tónsköpun með mjög góðum árangri. Markmið samstarfsins er að auka aðgengi nemenda að tónlistarnámi og skapa ný námstækifæri. Á þessu skólaári stunda 600 nemendur nám við Tónskólann. Skólastjóri er Júlíana Rún Indriðadóttir.

Eitt af mörgum verkefnum á vegum skólans er  samstarfsverkefni við 30 leikskóla í Reykjavík sem skólinn hefur leitt frá 2011. Verkefnið kallast Leikskólaverkefni Tónskóla Sigursveins.

Verkefnið er tvíþætt: Fyrri hlutinn fer fram í Tónskóla Sigursveins og leikskólunum í janúar, febrúar og marsmánuði. Undirbúin er efnisskrá með sönglögum eftir íslensk tónskáld og fá leikskólarnir kennsluefni í hendur. Leikskólabörnunum er boðið í heimsókn í Tónskólann, um 40–50 börnum í senn, þar sem nemendur Tónskólans og leikskólabörnin hittast og spila og syngja saman. Einnig eru hljóðfæri kynnt fyrir þeim með lifandi hætti. Síðari hluti verkefnisins felst í að sameina þátttakendur á upphafsdegi Barnamenningarhátíðar Reykjavíkur. Sex til sjö hundruð reykvísk leikskólabörn og nemendur Tónskóla Sigursveins syngja saman í Eldborgarsal Hörpu auk 40 manna ungmennahljómsveitar Tónskólans. Miðað er við þátttöku elsta árgangs hvers leikskóla, það er börn sem útskrifast að vori/sumri. Heiðursgestur á tónleikunum er það tónskáld sem valið hefur verið hverju sinni.

Í tengslum við þetta verkefni hafa leikskólabörnin fengist við fjölbreytt viðfangsefni, sem meðal annars tengjast verkum þeirra tónskálda sem valið hefur verið. Verkefnin geta tengst myndlist, heimspeki, útikennslu, lesskilning, tónlist, hljóðfærasmíði eða tjáningu. Börnin hafa heimsótt heimili eldri borgara, bókasöfn, kirkjustarf og sungið þar lögin sín.

Einn af þeim sem tilnefndi Tónskóla Sigursveins segir: „Á þeim 9 árum sem viðburðurinn hefur átt sér stað hafa nokkuð mörg börn stigið á svið Eldborgar og flutt lögin sín fyrir fullu húsi. Þetta er þeim dýrmæt og ógleymanleg stund  Starfsfólk leikskólanna á heiður skilið fyrir sitt starf en öll innlögn á lögum og frjó og skapandi vinna er í þeirra höndum. Þeirra er vinnan og afraksturinn eins og til var sáð.“

Sjá einnig um skólann og starfið í skólanámskrá hans og í Greinargerð um skólaárið 2019 og starfsáætlun 2020-21.

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN