Umsögn um tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla

Umsögn Samtaka áhugafólks um skólaþróun um tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla

Fram er komin tillaga að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla sem viðbragð við slökum árangri íslenskra nemenda í PISA könnuninni og til að færa stundafjölda nær meðaltali nágrannaþjóða okkar. Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun leggst gegn þeirri breytingu sem hér er boðuð. Í inngangi segir að tillagan sé liður í mótun menntastefnu til 2030 þar sem áhersla skal lögð á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur. Með tilliti til aðalnámskrár grunnskóla eru þessir áhersluþættir áhugaverðir.

Ástæða þess að stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun leggst gegn breytingu á viðmiðunarstundatöflu aðalnámskrár eru:

  • Í þessum tillögum felst aukin miðstýring. Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun telur að affarasælla væri að auka frelsi skóla og kennara til að þróa eigin leiðir í starfi. Viðmiðunarstundaskrá á að vera til viðmiðunar – hún má með engu móti verða ófrávíkjanleg.
  • Tillagan og hugmyndin um nákvæmlega skilgreinda viðmiðunarstundaskrá gerir ráð fyrir að nám nemenda sé bútað niður í einingar í stað samþættingar þar sem nemendur fást við raunveruleg verkefni. Góð rök eru fyrir því að sú leið sé slæm nýting á tíma.
  • Bent er á að forsenda þess að fjölgun kennslustunda í tiltekinni námsgrein leiði til árangurs er að góðar aðstæður séu til kennslunnar; menntaðir kennarar, vönduð námsgögn og árangursríkar kennslu- og námsmatsaðferðir. Aðstaða til náttúrufræðikennslu í grunnskólum hér á landi er mjög víða ófullnægjandi, stór hluti kennara sem annast kennsluna hefur ekki fengið nægilegan undirbúning til þess, starfsþróunartækifæri eru ófullnægjandi og námsefni skortir.
  • Mun vænlegra til árangurs er að efla kennaramenntun og starfsþróun á sviði náttúrugreina, bæta aðstæður og þróa námsefni, námsgögn og kennsluleiðbeiningar. Einnig má nefna þá leið að þróa og gefa út leiðbeiningar um framkvæmd fjölbreyttra valnámskeiða í náttúrugreinum. Þá má nefna að efla ráðgjöf við kennara, með því að ráða sérfræðinga, t.d. kennsluráðgjafa eða námstjóra.

Meiri tími til náttúrufræðikennslu á kostnað valgreina á unglingastigi

  • Val á unglingastigi er afar mikilvægur þáttur í námi. Valnámskeið tengjast gjarnan áhugasviði eða framtíðaráformum ungmenna. Vísa má til umfangsmikilla rannsókna sem sýna fram á að hafi nemendur val um viðfangsefni er líklegra en ella að námið leiði til árangurs. Valnámskeið minnka líkur á námsleiða, þau eru gjarnan verkleg, tengjast listgreinum, skapandi starfi, nýsköpun útivist, heilsu og íþróttum. Ljóst er að þessi ráðstöfun, nái hún fram að ganga, mun bitna á tækifærum nemenda til að iðka list- og verkgreinar.

Meiri tími til íslenskukennslu á kostnað sveigjanleika á miðstigi

  • Því miður benda rannsóknir til að íslenskukennsla, eins og hún er ástunduð, sé ekki að skila þeim árangri sem skyldi. Ef fjölga á kennslustundum í íslensku verður að fylgja því eftir með innleiðingu aðferða sem líklegt er að skili meiri árangri en þær sem nú eru mest notaðar.

Ofangreind umsögn var send í samráðsgátt 14. október 2020

Scroll to Top