Valdimar Helgason

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Valdimar Helgason, kennari við Réttarholtsskóla  

Valdimar Helgason, kennari við Réttarholtsskóla í Reykjavík, er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2022 fyrir framúrskarandi árangur í raungreinakennslu.

Valdimar lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1985 og meistaragráðu í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands 2010.

Valdimar hefur kennt náttúruvísindi og fleiri greinar á unglingastigi við Ölduselsskóla og Réttarholtsskóla. Hann hefur verið fagstjóri og aðstoðarskólastjóri, kennt á námskeiðum í Kennaraháskóla Íslands, skipulagt sumarskóla um náttúruskoðun, haft umsjón með innleiðingu tölvu- og upplýsingatækni, skrifað námsefni, haft umsjón með samræmdum prófum, unnið við þróunarverkefni, tekið þátt í námskrárgerð og þróað gæðamatskerfi sem notað var í mörgum grunnskólum. Valdimar hefur verið ráðgefandi við stofnanir, fyrirtæki og skóla, meðal annars um námsefnis- og prófagerð, tölvuvæðingu, þróunarverkefni og náttúrufræðikennslu.

Valdimar gerir miklar kröfur, bæði til sín og nemenda. Hann setur viðfangsefnin í vísindasögulegt samhengi, leggur áherslu á samspil vísinda og tækniþróunar og að nemendur átti sig á í meginatriðum varðandi það hvernig vísindaþekking tengist þeirri tækni sem er hluti af daglegu lífi nemenda. Þessa nálgun telur hann líklegasta til að vekja forvitni og áhuga nemenda á vísindum sem sé mikilvægasta veganesti þeirra út í lífið. Þá býður hann upp á vinsæl valnámskeið um vísindi (vísindaval), þar sem efnafræði, kjarneðlisfræði, sameindalíffræði, líftækni, erfðafræði og aflfræði eru á dagskrá. Á þessum námskeiðum er sjónum nemenda m.a. beint að vaxtarbroddum í vísindum, merkustu uppgötvunum í vísindum samtímans og mögulegum áhrifum þeirra á nánustu framtíð.  

Úr umsögn nemanda um kennslu Valdimars:

Valdimar hefur haft mikil áhrif á mig sem nemanda og á stóran þátt í því að ég ætla að velja frekara nám í raunvísindum í menntaskóla. Ég tel mig vera mjög heppinn að hafa haft hann sem kennara. Hann er einstaklinga flinkur í að vekja hjá manni áhuga og fá mann til að vilja vita meira um flókin viðfangsefni. Hann gerir kennslustundirnar mjög skemmtilegar og á auðvelt með að vekja hjá manni undrun og meiri áhuga. Maður sér metnaðinn og fagmennskuna sem fer í kennslustundirnar og það fær mann til að vilja leggja sig mikið fram. Að mínu mati er Valdimar frábær kennari, drífandi og mikil fyrirmynd, sem gerir kröfur en á sama tíma styður mjög vel við nemendur sína og getur útskýrt flókin viðfangsefni á þann hátt að allir skilja. Það er auðvelt að leita til hans og finnst mér hann vera mjög vingjarnlegur og hlýr og maður skynjar að honum er annt um nemendur sína.

Annar umsagnaraðili hafði meðal annars þetta að segja:

Kennslustofan hans er einstaklega skapandi og áhugahvetjandi námsumhverfi. Fyrrum nemendur hans hafa vitnað um að þeir séu mjög vel undirbúnir fyrir framhaldsskóla í eðlis- og efnafræði. Það sé kennslunni hjá Valdimari að þakka.