Vendikennsla í raungreinum

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2021:

Vendikennsla í raungreinum: Þróunarverkefni sem byggist á gerð myndbanda fyrir náttúru- og stærðfræðkennslu fyrir nemendur í grunnskólum

Þróunarverkefnið Vendikennsla í raungreinum hófst í Álftanesskóla 2013 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Verkefnið byggist á því að búin eru til kennslumyndbönd í náttúrufræði, líffræði og stærðfræði og þau gerð aðgengileg, ekki aðeins nemendum skólans, heldur öllum sem áhuga hafa á að nýta sér þau. Myndböndin eru rúmlega þrjú þúsund. Yfirumsjón með þessu verkefni hefur verið í höndum Gauta Eiríkssonar.

Meðal markmiða þessara verkefna er að

  • Styrkja fjölbreytta kennsluhætti og einstaklingsmiðað nám
  • Styrkja námshæfni nemenda og innra mat
  • Auka samvinnu á milli skóla og skólastiga
  • Efla upplýsinga- og tæknimennt með því að safna, vista og miðla nýju námsefni í á nýjan hátt
  • Koma til móts við bráðgera nemendur, nemendur með námsörðugleika og nemendur af erlendum uppruna
  • Gefa nemendum færi á að auka og dýpka þekkingu sína í raungreinum
  • Auðvelda foreldrum að fylgjast með og taka þátt í námi barnanna
  • Gera nemendur sjálfstæðari í námi

Vendikennslan hefur styrkt einstaklingsmiðað nám og viðtöl við nemendur hafa sýnt að þeir eru sjálfstæðari og skipulagðari en áður. Vísbendingar er um að náttúrulæsi hafi batnað. Það er einnig reynsla kennara að nemendur séu flestir betur undirbúnir í umræðum og verkefnum í kennslustundum.

Í umsögn með tilnefningu er m.a. bent á:

Verkefnin hafa orðið til þess að nemendur alls staðar á landinu hafa hvenær sem er aðgang að myndböndum (námsefni) í náttúru- og stærðfræði. Myndböndin nýtast helst nemendum á elsta stigi en geta einnig nýst fyrir nemendur á miðstigi og á framhaldsskólastigi … Efnið er aðgengilegt foreldrum og geta þeir því fylgst með námi barna sinna og aðstoðað þau með hjálp myndbandanna. Á það bæði við um nemendur með námsörðugleika og bráðgera nemendur. Verkefnið gefur nemendum færi á að vinna sjálfstætt og í samvinnu við aðra, að nýta myndböndin í þekkingarleit, við úrvinnslu verkefna og tækifæri til að bera aukna ábyrgð á námi sínu.

Verkefnin hafa fengið styrki úr Þróunarsjóði Garðabæjar og verið kynnt á námskeiðum og fræðslufundum.

Myndböndin eru aðgengileg á þessari slóð: https://www.youtube.com/channel/UC7c_8_Q5wiBpjGtgRxYcxjQ

 

 

Scroll to Top