Viltu kynna áhugavert skólaþróunarverkefni?

Ágústráðstefna Samtaka áhugafólks um skólaþróun er nú í undirbúningi. Ráðstefnan verður í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ föstudaginn 11. ágúst. Þemað verður Upp úr hjólförunum! ‒ sem væntanlega skýrir sig sjálft! Aðalfyrirlesarar verða dr. Thomas Hatch, prófessor við Columbia háskóla, Málfríður Bjarnadóttir, deildarstjóri í Helgafellsskóla, Hildur Arna Håkansson, kennari í Skarðshlíðarskóla og Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri GRID ehf. Sjá nánar hér: https://skolathroun.is/upp-ur-hjolforunum-radstefna-i-helgafellsskola-11-agust-2023/

Stefnt er að því að bjóða fjölbreytta dagskrá síðdegis; fyrirlestra, kynningar, málstofur og vinnusmiðjur um þróunar- og nýbreytnistarf í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þegar hafa borist mörg tilboð um efni – en enn er hægt að bæta við. Þeir sem hafa áhuga eru hvattir til að hafa samband við ritara samtakanna (skolastofan@skolastofan.is). Bent er á að þetta er kjörinn vettvangur til kynninga fyrir þá sem fengið hafa skyrki til þróunarverkefna. (Rétt er að nefna að yfirleitt er vinna við ráðstefnur Samtaka áhugafólks um skólaþróun sjálfboðavinna, en ferðakostnaður er greiddur, þeir sem leggja af mörkum greiða að sjálfsögðu ekki ráðstefnugjald og verði rekstrarafgangur er honum skipt milli þeirra sem lagt hafa af mörkum í formi gjafabréfa.)

Scroll to Top