Brynja Stefánsdóttir, kennari í Stapaskóla

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023

Brynja Stefánsdóttir, kennari í Stapaskóla

Brynja er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2023 fyrir árangursríka vísinda- og tæknikennslu á leik- og grunnskólastigi

Brynja  lauk B.Ed.- prófi frá Háskóla Íslands 2014 og meistaragráðu 2016. Hún kennir nú við Stapaskóla í Reykjanesbæ, bæði á leik- og grunnskólastigi. Meðfram kennslu stundar hún nám í náttúru- og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Brynja hefur verið í hópi kennara sem hafa verið  leiðandi í  þróun kennsluhátta í Stapaskóla þar sem meðal annars er  byggt á verkefnamiðuðu námi, samþættingu og áhugasviðsverkefnum. Með samkennurum sínum á hún hlut að því að kynna námsefni og verkefni á opnu vefsvæði og með hlaðvarpi (Stapaspjallið). Þá hefur Brynja átt frumkvæði að vísindavökum í skólanum þar sem nemendur fást við ýmis verkefni í raunvísindum. Brynja tekur þátt í vinnuhópi sem vinnur að endurskoðun aðalnámskrár í náttúrugreinum og kennir á endurmenntunarnámskeiði um náttúrufræði til framtíðar á vegum Menntafléttunnar.   

Í umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu Brynju sagði m.a.  

Brynja er kennari af lífi og sál … Hún smitar einlægum áhuga sínum á viðfangsefninu til nemenda auk þess sem hún sýnir nemendum einstakan skilning og nærgætni og einstaklingsmiðar allt nám eins og þarf. Brynja hvetur samstarfsfólk sitt áfram og lítur heilstætt á skólastarf. Við skipulag kennslunnar hugar hún vel að læsi og öðrum grunnþáttum menntunar. Hún er einstaklega jákvæð og góð fyrirmynd fyrir aðra kennara, fagmaður fram í fingurgóma, nýtir upplýsingatækni vel í starfi sínu og nær miklum árangri með nemendum. Að lokum er hún leiðandi í samfélagi náttúrufræðikennara með því að deila hugmyndum og hvetja aðra áfram. 

Dæmi um vefsíður sem Brynja hefur sett upp fyrir nemendur: 

 

Scroll to Top