Tónlistarskóli Grindavíkur

Tónlistarskóli Grindavíkur er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og þróunarstarf

Tónlistarskóli Grindavíkur var stofnaður 1972. Í skólanum eru 94 nemendur í einkanámi á aldrinum 6 til 57 ára, 241 nemandi í forskóla, hljóðfæravali og valgreinum og 11 starfsmenn. Skólinn starfar í fjórum deildum: Klassískri deild, Blásaradeild, Rytmískri deild, auk Forskóladeildar. Í hverri deild eru nokkrar leiðir í boði. Gildi skólans eru gæði, sköpun og metnaður. Skólinn er í nýju húsnæði sem þykir einkar vel búið hljóðfæra- og tækjakosti og annarri aðstöðu. Auk kennslu í hljóðfæraleik sér skólinn um forskólakennslu fyrir 1.– 3. bekk í grunnskólanum. Kennarar skólans sjá um hljóðfæraval fyrir nemendur í 4. bekk grunnskólans og bjóða valgreinar fyrir unglingastigið. Einnig þjónar skólinn leikskólastiginu með ýmsum hætti.

Í skólanum hefur á undanförnum árum verið þróuð sérstök aðferð í tónlistarnáminu þar sem byggt er á snjalltækni. Aðferðin, sem kölluð hefur verið Eftirfylgniaðferðin, þróaðist úr speglaðri kennslu (vendikennslu, e. flipped instruction) og er notuð með hefðbundinni einkakennslu. Kennari útskýrir fyrir nemandanum heimavinnuna á hljóðfærið, söng eða tónfræði og tekur upp á spjaldtölvu. Upptakan er síðan aðgengileg fyrir nemandann eftir kennslustundina á sérstökum vef. Hún er miðuð við stöðu og þarfir nemenda hverju sinni og hjálpar einnig nemandanum og foreldrum með æfingar heima því foreldrar eru sjaldnast sérfræðingar í hljóðfæraleik. Markmiðið er að minnka brottfall nemenda úr skólanum og auka færni og getu nemenda við þjálfun heima. Það er gert með það að leiðarljósi að nýta tæknina til að koma aðferðum heim í stofu nemenda og að auka einstaklingsmiðaða þjónustu með nútímatækni. Aðferðin hefur reynst sérstaklega vel í tengslum við þær aðstæður sem skapast hafa vegna covid.

Inga Þórðardóttir skólastjóri hefur leitt þróun þessarar aðferðar sem vakið hefur athygli utan skólans.

Úr umsögnum sem fylgdu tilnefningum:

Áhugavert er að sjá hvernig tæknin er notuð til að ýta undir nám nemenda. Námið er einstaklingsmiðað þannig að þörfum hvers og eins nemanda er mætt og geta foreldrar hjálpað til við lærdóminn heima með hjálp tækninnar þótt þeir þekki ekki viðfangsefnið. Þessi kennsluaðferð hefur líka spurst út og hafa tónlistarskólar óskað eftir kynningu á aðferðinni. Eins er líka áhugavert að sjá svo framsækið skólastarf í tónlistarskóla en þeir eiga það til að vera svolítið íhaldssamir í starfsháttum … þá hefur skólinn verið að þróa og treysta námsmatsaðferðir sínar.

Úr umsögn foreldris:

Mín upplifun sem foreldri er að mikill metnaður býr í tónlistarskólanum. Hann er vel útbúinn af hljóðfærum, með færa kennara og er einnig vel útbúinn svo börn geti dvalið þar utan skóla við tónlistarsköpun í tölvurými og stundað tónfræði … Skólinn notar forritið Showbie sem gerir foreldrum kleift að vera meira inni í hljóðfæranámi barna sinna, án þess að þurfa að eiga sjálf bakgrunn í hljóðfæranámi … Eftir tilkomu forritsins erum við foreldrarnir meira meðvituð um hvað kennslan gengur út á, hvaða lög er verið að æfa og hvað þarfnast frekari þjálfunar. Þannig getum við veitt aðhald, aðstoðað við það sem er krefjandi og sýnt náminu mun meiri áhuga.

Sjá hér kynningu á skólanum

 

 

Scroll to Top